Skoðun

Harkaleg aðför að Snorra Óskarssyni í Betel

Ingvar Gíslason skrifar
Það situr e.t.v. ekki á mér öðrum einstaklingum fremur að ráðast í að verja málstað Snorra Óskarssonar grunnskólakennara á Akureyri, sem bæjaryfirvöld hafa sagt upp störfum vegna afstöðu hans til málefna samkynhneigðra. Þó get ég ekki orða bundist.

Þótt við Snorri í Betel séum báðir kristnir menn, þá er hann ekki að öllu leyti „kristinn“ á sama hátt og ég. Í fyrsta lagi er hann afar virkur í safnaðarstarfi kirkjudeildar sinnar, beinlínis forustumaður þar. Ég má heita óvirkur félagi í þjóðkirkjunni, en á engan hátt áhugalaus um kirkjumál, kenningar og boðskap. Um þau efni ber margt á milli okkar Snorra. Hins vegar þekki ég svo vel kristniskilning Snorra að ég get sett mig í spor hans. Hvorki hneykslast ég á afstöðu hans til kristins boðskapar, hvað þá að ég beri mér það í munn að skilningur hans sé „út í hött“. Snorri Óskarsson er vel viti borinn maður og talar ekki út í hött.

Aftur á móti segi ég það alveg skýrt, að ég felli mig ekki við þá afstöðu hans og Hvítasunnumanna að byggja kristni sína svo strangt á Móselögum og gamla testamentinu sem raun ber vitni. Slík lögmálsfesta og ótæpar vísanir til forngyðinglegra bókmennta getur gengið úr hófi svo jafnvel stefnir þvert á orð Jesú Krists sjálfs þegar til kjarnans kemur. Á orði Krists varð til hið nýja testamenti, nýr sáttmáli við Guð, sem augljóslega skilur kristindóm frá gyðingdómi. Hinn nýi sáttmáli er vitaskuld agað guðsorð, en eigi að síður „frjálslyndur“, getur þróast með tímanum og lagað sig að aldarskilningi hverrar tíðar, varast bókstafstrú og stífa þrákelkni í túlkun og boðun.

Þótt ég segi þetta um skilin milli gamla og nýja sáttmála milli Guðs og manna, sem ég lít á sem grundvöll kristninnar, þá veit ég eins vel og aðrir að kristni aldanna sækir margar kreddur og kenningar beint til gamla testamentisins. Eitt af því lífseigasta í þeim efnum snertir hjúskap og kynlíf. Kirkjukristni um aldir og enn í dag, kaþólska kirkjan, lútersk kirkja, Kalvin-istar, Biskupskirkjan breska, ríkiskirkjur Norðurlanda, þjóðkirkjan íslenska fram á síðustu ár, — allar þessar kirkjur hafa öld af öld viðhaldið þeirri kenningu, þeirri guðfræði, að til hjúskapar verði ekki stofnað nema milli karls og konu. Þetta þýðir einfaldlega að á vegum kristnihalds þessara kirkna verður ekki stofnað til hjónabands karls og karls, konu og konu.

Þessi afstaða hefur reyndar verið að mildast nokkuð, m.a. hér á landi, svo að samkynhneigðir eru nú vígðir til hjónabands í íslensku þjóðkirkjunni. En fjarri fer því að hjónaband samkynhneigðra sé viðurkennt innan kristinna trúfélaga almennt. Fjölmennasta trúarsamfélagið, páfadómur, hafnar hjúskaparrétti samkynhneigðra. Rétttrúnaðarkirkjur í Austur-Evrópu og Grikklandi gera hið sama. Hvítasunnusöfnuður Snorra Óskarssonar er því fjarri því að vera einsdæmi í þessu sambandi. Nei, hann fylgir meginstraumnum.

Og þar með tel ég mér það auðvelt verk að gerast „réttargæslumaður“ Snorra í Betel, þó ekki sé nema í stuttri blaðagrein. Sem gamall Akureyringur, sem þekkti mannskilning, söguþekkingu og dómgreind forustumanna í fræðslu- og skólamálum á Akureyri í minni tíð, Snorra Sigfússonar, Þorsteins M. Jónssonar, Hannesar J. Magnússonar, Eiríks Sigurðssonar, Jóhanns Frímanns, Sverris Pálssonar og allra hinna furða ég mig á afstöðu skólayfirvalda gagnvart Snorra Óskarssyni, heiðursmanni sem hann er og góðum kennara. Honum er gefið að sök að vera eitthvert „únikum“ í trúarafstöðu og guðfræðiskilningi, þótt varla beri neitt á milli í afstöðu kirkjudeildar hans til hjúskapar samkynhneigðra og fjölmennustu kirkjustofnana heimsins. Mér skilst þó að Snorri sé sakaður um að predika útskúfunarkenninguna öðrum fremur en jafnvel það er hæpinn sannleikur. Hún heyrist úr prédikunarstólum fleiri kirkna en Hvítasunnumanna, ef út í það er farið. Og hefur það sannast á Snorra, að hann hafi blandað helvítistrúnni inn í kennslu sína í lestri, skrift og reikningi og öðrum meginstoðum grunnskólauppfræðslunnar?

Ég tel öll rök mæla með því að brottvikningarmál Snorra í Betel verði tekin upp að nýju, ekki endilega fyrir dómstólum, heldur á embættis- og samningsgrundvelli með það markmið í huga að hann endurheimti kennarastöðu sína. — Að endingu: Til þess að losa sjálfan mig við hugsanlegt þras um persónulegar skoðanir mínar frekar en ástæða er til, ítreka ég að ég set mig ekki upp á móti hjónaböndum samkynhneigðra.




Skoðun

Sjá meira


×