Erlent

Harðir bardagar í höfuðborg Sýrlands

Í flóttamannabúðum í Jórdaníu er fjöldi flóttamanna frá Sýrlandi.
Í flóttamannabúðum í Jórdaníu er fjöldi flóttamanna frá Sýrlandi. nordicphotos/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna reynir að ná samkomulagi um framhald friðargæslustarfs í Sýrlandi, en umboð núverandi friðargæslu rennur út á föstudag. Friðargæslan má sín þó lítils og hafa átökin í Sýrlandi versnað dag frá degi.

Hörð átök hafa geisað í nokkrum hverfum Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, síðustu daga. Þetta eru hörðustu átökin í borginni frá því uppreisnin gegn Bashar al Assad forseta hófst snemma á síðasta ári.

Það eru uppreisnarmenn sem berjast við stjórnarherinn, og hafa þyrlur verið notaðar til stuðnings hernum. Í gær breiddust átökin út til fleiri hverfa.

Umboð 300 manna friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna rennur út í lok vikunnar, en ekki hefur tekist samkomulag í Öryggisráði SÞ um framhald aðgerða.

Kofi Annan, erindreki Sameinuðu þjóðanna, hélt til Rússlands í gær á fund þeirra Vladimírs Pútín forseta og Sergeis Lavrov utanríkisráðherra, til að reyna að fá þá til að styðja refsiaðgerðir gegn Sýrlandi, en Rússar hafa eins og Kínverjar staðið á móti slíku í Öryggisráðinu.

Íbúar í borginni eru margir búnir að pakka niður helstu nauðsynjum og reiðubúnir til að flýja borgina með skömmum fyrirvara. Sumir eru þegar farnir.

„Í töskunni minni eru vegabréf fjölskyldunnar, háskólagráður okkar, eitthvað af peningum og lyf," sagði 57 ára tveggja barna faðir í viðtali við fréttastofuna AP. Hann þorði ekki að gefa upp nafn sitt af ótta við hefndaraðgerðir.

„Það er mjög erfitt að ímynda sér að fara burt frá heimili sínu og öllu sem þú hefur unnið að, en þetta snýst um líf og dauða," sagði hann.

Skotbardagar voru í miðborginni í gær, skammt frá þinghúsinu. Þeir bardagar stóðu reyndar stutt yfir og uppreisnarmenn flúðu skjótt af vettvangi.

„Göturnar eru algerlega auðar, búðir eru lokaðar. Fólkið óttast það sem í vændum er," segir Omar Qabbouni, einn uppreisnarmanna í Damaskus.

Hann sagði átta manns hafa fallið í borginni í gær þegar stjórnarherinn beitti þungavopnum og sprengjum.gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×