Erlent

Keppendur flykkjast til London

Rússneska siglingaliðið kom til London í gær, sjaldan hefur reynt jafn mikið á skipulagið á Heathrow og nú í aðdraganda Ólympíuleikanna.
Rússneska siglingaliðið kom til London í gær, sjaldan hefur reynt jafn mikið á skipulagið á Heathrow og nú í aðdraganda Ólympíuleikanna. Nordicphotos/AFP
Keppendur, fjölmiðlafólk og áhorfendur flykkjast nú til London þar sem Ólympíuleikarnir verða settir eftir tíu daga.

Komusalirnir á Heathrow-flugvelli voru troðnir af fólki í gær, en þar var búist við um 120.000 komufarþegum frá fimmtíu löndum.

Forsvarsmenn Heathrow hafa fengið til liðs við sig um eitt þúsund sjálfboðaliða til að bregðast við ösinni, enda fer eitt og annað óvenjulegt um flugstöðina þessa dagana, til dæmis stangarstökksstangir, kastspjót, reiðhjól og alls konar íþróttaútbúnaður.

„Við höfum búið okkur undir Ólympíuleikana síðustu sjö ár og nú erum við að hrinda áætlunum okkar í framkvæmd“, sagði Nick Cole sem stýrði undirbúningi Heathrow-flugvallar.

Ekki gekk þó allt að óskum í gær þar sem rúturnar sem flytja keppendur frá flugvellinum inn í Ólympíuþorpið lentu í talsverðum töfum.

Reiknað er með að fyrir leikana verði sett nýtt met yfir fjölda farþega um Heathrow, en alls er búist við 236.955 farþegum. Fyrra met, sem sett var í júlí í fyrra, var rúmlega 233 þúsund. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×