Erlent

Mestu fjöldamorðin frá upphafi átaka

Þessi mynd er sögð sýna fórnarlamb árásarinnar í Tremseh á fimmtudag. Um 200 manns féllu að sögn uppreisnarmanna. Stjórnvöld segja mannfallið um 50 manns. fréttablaðið/ap
Þessi mynd er sögð sýna fórnarlamb árásarinnar í Tremseh á fimmtudag. Um 200 manns féllu að sögn uppreisnarmanna. Stjórnvöld segja mannfallið um 50 manns. fréttablaðið/ap
Uppreisnarmenn í Sýrlandi segja að stjórnarherinn hafi drepið á þriðja hundrað manns í bænum Tremseh í Hama-héraði í Sýrlandi á fimmtudag. Ef rétt reynist var gærdagurinn því einn sá blóðugasti í borgarastyrjöldinni í landinu.

Mismunandi fréttir bárust af árásinni í gær, en erfitt er að sannreyna fréttir þar sem erlendir blaðamenn fá ekki að starfa frjálsir í landinu. Uppreisnarmenn segja að stjórnarherinn hafi látið sprengjum rigna yfir bæinn úr lofti og í kjölfarið hafi árásarmenn á vegum stjórnvalda farið inn í bæinn og skotið og stungið fólk til bana.

Yfirmaður eftirlitssveitar Sameinuðu þjóðanna í landinu, Robert Mood, kenndi stjórnvöldum um árásina. Hann sagði fréttamönnum í Damaskus að hópur eftirlitsmanna hefði verið í um fimm kílómetra fjarlægð frá árásinni. Þeir hefðu staðfest sprengjur úr lofti og mikla skothríð og vopnanotkun. Eftirlitsmennirnir 300 sem eru í landinu geta nánast ekkert athafnað sig lengur vegna sívaxandi ofbeldis.

Myndbönd hafa verið sett á netið sem eiga að sýna lík fólks sem var drepið í árásinni á Tremseh. Misjafnt er hversu margir eru sagðir hafa fallið, en margir sem fréttamiðlar hafa rætt við segja töluna yfir 200. Sú tala hafði þó ekki enn verið studd með nafnalistum eða öðru í gærkvöldi.

Mannréttindasamtök sögðu fjöldann vera 160 manns, þar af tugir uppreisnarmanna.

Stjórnvöld í Damaskus höfðu aðra sögu að segja. Þau segja yfir 50 manns hafa látið lífið þegar stjórnarherinn lenti í átökum við vopnuð gengi hryðjuverkamanna sem hefðu ráðist á þorpsbúa.

Kofi Annan, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins í málefnum Sýrlands, sagðist hneykslaður á fréttunum af morðunum. Hann sagði gríðarlega brýnt að ofbeldinu og hrottaskapnum linnti.

Talið er að um sextán þúsund manns hafi látið lífið í Sýrlandi frá því að uppreisnin gegn Bashar al-Assad forseta hófst í mars í fyrra.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×