Lífið

Greta og Friðrik Ómar hjálpa til við undirbúning

Eurovisionfararnir Greta Salóme og Friðrik Ómar hittu Töru Þöll og miðluðu reynslu sinni og þekkingu til hennar til að hjálpa henni að undirbúa sig fyrir keppnina.
Eurovisionfararnir Greta Salóme og Friðrik Ómar hittu Töru Þöll og miðluðu reynslu sinni og þekkingu til hennar til að hjálpa henni að undirbúa sig fyrir keppnina. Fréttablaðið/ernir
„Ég er svolítið stressuð en aðallega bara rosalega spennt," segir hin 18 ára gamla Tara Þöll Danielsen Imsland sem mun keppa fyrir hönd Íslands í European Song Competition á Írlandi dagana 27. - 29. júní.

European Song Competition er alþjóðleg söngvakeppni fyrir fólk með þroskahömlun og er þetta í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt. Keppnin fer fram í Cork borg á Írlandi og eru um 20 þátttakendur víðs vegar að úr Evrópu sem mæta til leiks. Tara Þöll hefur aldrei æft söng en segist þó hafa sungið mikið í gegnum tíðina. „Ég hef oft tekið þátt í alls kyns söngvakeppnum í skólanum og Hinu húsinu, en aldrei í neinni jafn stórri og þessari," segir hún. Tara mun syngja lagið Bad Romance með Lady Gaga með undirspil sinfóníuhljómsveitar og verður án efa glæsileg á sviði íklædd kjól frá Arfleið. „Hún Ágústa í Arfleið gaf mér kjólinn sem hún hannaði sérstaklega handa mér. Hann er alveg í mínum stíl og meðal annars gerður úr hreindýraleðri og fiskiroði," segir Tara.

Það er Hitt húsið og List án landamæra sem standa fyrir þátttöku Íslands í keppninni í ár. Haldin var forkeppni síðasta haust þar sem Tara Þöll fór með sigur af hólmi og var í kjölfarið valin til þátttöku af aðstandendum keppninnar úti, en ekki komust allir þar að sem sóttu um. Hún segir undirbúninginn hafa verið mikinn undanfarna daga, en sjálf heldur hún utan þann 21. júní í nokkurra daga frí með foreldrum sínum áður en hún hittir hópinn í Cork.

Keppnin er hálfgert ígildi Eurovision söngvakeppninar nema fyrir þroskaskerta og segist Tara vera mikill Eurovision aðdáandi. „Ég hef fylgst vel með Eurovision síðan árið 2000 og á mér mörg uppáhalds lög," segir hún. Greta Salóme og Friðrik Ómar, Eurovisionfarar með meiru, hafa hitt Töru Þöll á æfingum og lagt sitt af mörkum til að hjálpa henni að undirbúa sig undir það sem koma skal. „Ég er mjög þakklát Gretu og Friðriki fyrir að gefa sér tíma til að hjálpa mér. Mér finnst Greta alveg frábær og finnst hún og allur hópurinn hafa staðið sig rosalega vel í Eurovision í ár," segir Tara Þöll að lokum.

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.