Innlent

Nefndirnar ætla að skila í haust

Önnur nefndin á að varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða sem leiddu meðal annars til gjaldþrots margra þeirra.
Önnur nefndin á að varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða sem leiddu meðal annars til gjaldþrots margra þeirra. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
Rannsóknarnefnd um fall sparisjóðanna mun skila Alþingi lokaskýrslu í fyrsta lagi þann 1. september næstkomandi. Nefndarmaður á þó frekar von á því að skilin dragist fram eftir árinu 2012.

Í þingsályktunartillögu um skipun rannsóknarnefndarinnar segir að hún eigi að „skila forseta Alþingis skýrslu eigi síðar en 1. júní 2012 um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.“

Bjarni Frímann Karlsson, lektor í viðskiptafræði, sem situr í nefndinni segir það hafa dregist í þrjá mánuði að skipa nefndina frá því að þingsályktunin var samþykkt. „Við vorum því í raun ráðin frá 1. september og ráðin til árs. Það er erfitt að segja til um það núna hvenær við ljúkum störfum nákvæmlega. Ég á von á að það dragist eitthvað aðeins fram eftir ári.“

Í september 2011 var líka skipuð nefnd til að rannsaka starfsemi Íbúðalánasjóðs frá árinu 2004 og til ársloka 2010. Í þingsályktunartillögu vegna þeirrar skipunar segir að hún skuli skila „um hana [rannsóknina] skýrslu til Alþingis innan sex mánaða frá skipun nefndarinnar“. Hún hefði því átt að skila skýrslu sinni í byrjun mars síðastliðins. Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari og formaður nefndarinnar, segir stefnt að því að skila skýrslu til Alþingis í haust. „Það er svolítið erfitt að ákveða endapunkt. Þetta verk er ekki þannig að það sé auðvelt að segja til um hann. En það er verið að vinna á fullu og stefnan er sett á að skila niðurstöðum í haust.“ - þsj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×