Erlent

Pútín segir pólitíska lausn vel mögulega í Sýrlandi

Hann er nýtekinn við forsetaembættinu í Rússlandi á ný, en Rússar hafa verið gagnrýndir fyrir að standa gegn aðgerðum á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn Sýrlandi.
nordicphotos/AFP
Hann er nýtekinn við forsetaembættinu í Rússlandi á ný, en Rússar hafa verið gagnrýndir fyrir að standa gegn aðgerðum á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn Sýrlandi. nordicphotos/AFP
„Það eru ýmsir hagsmunir í húfi í átökunum og maður þarf að finna þau svæði þar sem þessir hagsmunir fara saman, og fá síðan alla aðila til að setjast að sama borði,“ sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti um ástandið í Sýrlandi, sem farið hefur hríðversnandi undanfarna daga og vikur.

„Það þarf ákveðna fagmennsku til og þolinmæði,“ bætti Pútin við og lofaði að beita sér fyrir því að jákvæð niðurstaða fáist.

Pútín var staddur í Þýskalandi í opinberri heimsókn hjá Angelu Merkel kanslara. Bandaríkin og fleiri ríki hafa gagnrýnt Rússa harðlega fyrir að standa í vegi fyrir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna beiti Sýrlandsstjórn meiri þrýstingi.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í gær og fordæmdi fjöldamorðin í Houla, sem framin voru í síðustu viku, þegar meira en hundrað manns voru drepnir.

Navy Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sagði á fundi ráðsins að aðildarríki þess ættu að styðja kröfur um að gerð verði óháð rannsókn á því sem gerðist í Houla.

„Að öðrum kosti getur ástandið í Sýrlandi snúist upp í hamslausa styrjöld og framtíð landsins, sem og þessa heimshluta alls, getur verið í mikilli hættu,“ sagði hún.

Í gær fréttist svo af því að á fimmtudag hafi enn á ný verið framin fjöldamorð í Sýrlandi. Ellefu verkamenn voru myrtir úti á götu í borginni Homs, þar sem þeir voru á leið til vinnu sinnar.

Kofi Annan, erindreki SÞ og Arababandalagsins, sagðist síðan í gær vera orðinn býsna óþolinmóður út af ástandinu í Sýrlandi, það sé farið að valda sér skapraun hve illa gangi að hrinda friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins í framkvæmd.

Hann sagði að Assad Sýrlandsforseti verði nú að gefa skýr merki þess, bæði til þjóðar sinnar og alþjóðasamfélagsins, „að hann sé ákveðinn í að hrinda áætluninni í framkvæmd og að hann ætli að taka skref áfram í leit að friði“.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×