Innlent

Áhætta bæjarsjóðs sögð í lægsta þrepi

Bæjarstjórinn á Siglufirði segir fólksfækkun á Siglufirði hafa stöðvast og síðan snúist við eftir að Héðinsfjarðargöngin opnuðu Siglfirðingum leið til Eyjafjarðar. Fréttablaðið/Friðrik
Bæjarstjórinn á Siglufirði segir fólksfækkun á Siglufirði hafa stöðvast og síðan snúist við eftir að Héðinsfjarðargöngin opnuðu Siglfirðingum leið til Eyjafjarðar. Fréttablaðið/Friðrik
„Þetta er náttúrulega alveg þrælmagnað,“ segir Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, um uppganginn á Siglufirði frá því Héðinsfjarðargöng voru opnuð og eftir tilkomu ferðaþjónustu- og veitingafyrirtækisins Rauðku.

Sigurður segir að mesta aukningin á ferðamönnum á landinu í fyrra hafi verið á Siglufirði og við Dettifoss. „Héðinsfjarðargöngin hafa haft feykilega mikið aðdráttarafl,“ segir bæjarstjórinn. Einnig vegi þungt feykileg uppbygging á vegum Rauðku ehf., félags í eigu Róberts Guðfinssonar athafnamanns.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á þriðjudag hafa bæjaryfirvöld og Rauðka gert samkomulag um framtíðaruppbyggingu. Rauðka leggur 300 milljónir króna í sjálfseignarstofnun sem eiga mun skíðasvæðið og golfvöllinn á Siglufirði. Sveitarfélagið setur núverandi mannvirki inn í sjálfseignarstofnunina. Rauðka fær lóð undir hótel sem áætlað er að kosti um 900 milljónir króna að reisa. Áður mun Rauðka hafa lagt 600 milljónir í lagfæringar á húsum við höfnina.

„Þetta er hrein og klár vítamínsprauta inn í allt atvinnulífið því hér eru allir iðnaðarmenn á fullu í að endurbæta þessi hús. Svo hefur þetta smitað frá sér út í samfélagið því það er verið að taka hér önnur eldri hús algerlega í gegn þannig að bæjarmyndin er að breytast mikið,“ segir Sigurður sem kveður hagsmuni í þessu fara saman á mörgum sviðum.

Sigurður bendir á að til þess að skapa nýju hóteli grundvöll þurfi eitthvað til að draga gesti að. Þess vegna leggi Róbert Guðfinnsson mikla áherslu á skíðaíþróttina og vilji gerbreyta aðstöðu til iðkunar hennar. Svipað gildi um golfvöllinn. Sjálft hafi bæjarfélagið ekki efni á að leggja mikla peninga í slíkt.

„Róbert hefur tök á þessu og mér finnst þetta stórkostleg nálgun af hans hálfu,“ segir Sigurður sem kveður hugmynd Róberts um sjálfseignarstofnun hafa sett bæjarfulltrúa í þá stöðu að geta valið um að flýta uppbyggingu á þessum sviðum verulega. Með því sé ekki aðeins hægt að tryggja byggingu nýja hótelsins heldur einnig umgjörð fyrir önnur þjónustufyrirtæki. „Þannig að það munu allir hagnast á þessu í samfélaginu.“

Sigurður segir menn hafa verið mjög hugsi þegar þeir settust yfir þessa nálgun. „Það er þekkt að sveitarfélög hafa í gegn um tíðina farið inn í hlutafélög sem hafa endað á alla kanta. En ef einhver áhætta er þá er hún algerlega sett á lægsta áhættuþrep gagnvart sveitarfélaginu því þá rennur allt aftur til bæjarfélagsins,“ segir bæjarstjórinn.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×