Skoðun

Verkfræði – tækifæri til framtíðar

Kristinn Andersen skrifar
Verkfræði kemur víða við sögu í samfélagi nútímans. Flestir þekkja til starfa verkfræðinga við hönnun og gerð mannvirkja sem ber fyrir augu í byggð sem óbyggðum. Minna sýnileg, en ekki síður mikilvæg, eru fjölmörg önnur viðfangsefni verkfræðinga, í hönnun orkukerfa, fjarskiptakerfa, hátæknibúnaðar í heilbrigðisþjónustunni, margs konar iðnfyrirtækjum, og svo má lengi telja.

Þegar við fljúgum milli landa eða ökum innan bæjar, drögum fram símann eða ræsum tölvuna, erum við að nýta búnað sem verkfræðingar hafa gegnt lykilhlutverki við hönnun á.

Greinum verkfræðinnar er sameiginlegt að þar eru hagnýt viðfangsefni leyst með þekkingu á raunvísindum og aðferðum stærðfræðinnar. Á undanförnum árum hefur verkfræðin verið í örri þróun og verkfræðingar takast á við æ fjölbreytilegri viðfangsefni. Nýjar verkfræðigreinar hafa rutt sér til rúms á sviði heilbrigðistækni, rekstrar og fjármála, hugbúnaðarþróunar og kerfislíffræði, svo nokkur dæmi séu tekin.

Efnahagsástand undanfarinna ára hefur í sumum greinum haft áhrif hérlendis á framkvæmdir, verkefni og atvinnumál verkfræðinga, eins og annarra. Við því hafa sumir brugðist með því að finna sér starfsvettvang erlendis, tímabundið eða til lengri tíma, og búa þar að því að störf verkfræðinga eru að miklu leyti óháð landamærum. Aðrir nýta þekkingu sína til að hasla sér völl með frumkvöðlastarfi og nýjum atvinnutækifærum.

Verkfræðingafélag Íslands fagnar á þessu ári aldarafmæli, en félagið var stofnað í Reykjavík af þrettán verkfræðingum og öðrum „verkfróðum mönnum“, eins sagt er frá, þann 19. apríl árið 1912. Á þeim hundrað árum sem nú eru liðin frá stofnun félagsins hafa orðið stórstígar framfarir á öllum innviðum samfélagsins og aðbúnaði fólks. Á undanförnum áratugum hafa verkfræðingar átt þar drjúgan hlut í að leggja vegi um vegaleysur, beisla orku náttúrunnar, færa tækni atvinnulífsins til nútímahorfs og leggja með öðrum hætti grunn að þeim lífsgæðum sem við lifum við í dag.

Verkfræði er kennd við tvo háskóla hérlendis, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Full ástæða er til að hvetja ungt fólk til náms í tækni- og raunvísindagreinum, bæði stúlkur og pilta, þar sem atvinnutækifæri framtíðarinnar eru óþrjótandi, jafnt á erlendri grundu sem hérlendis.




Skoðun

Sjá meira


×