Skoðun

Nýtt hús – til hvers?

Sigurður Guðmundsson skrifar
Landspítali starfar nú á 17 stöðum í um 100 húsum og sex heilbrigðisdeildir háskólans starfa á 13 stöðum, allt frá Hofsvallagötu að Eirbergi á Landspítalalóð. Um er að ræða stærstu vinnustaði landsins. Á Landspítala vinna um 5.000 manns og við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands um 2.500 manns, þar með taldir stúdentar.

Húsnæði spítalans er margt gamalt og úr sér gengið, við hann hefur verið byggt og upp á húsin tjaslað í áranna rás, stundum án mikils samræmis. Meginstarfsemin er einkum í tveimur húsum og auðvelt að sjá óhagræðið af hreppaflutningum veiks fólks húsa á milli. Flestir sjúklingar liggja á tví- eða fjórbýli. Enginn þarf að fara í grafgötur um hve óþægilegt er að þurfa að ræða vandamál sín við slíkar aðstæður við lækna, hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk og ekki síst ættingja og vini. Nógu slæmt er að liggja á spítala, og ekki verður það betra í fjölmenni. Endurteknar spítalasýkingar hafa verið verulegt vandamál með ýmsum og alvarlegum afleiðingum. Ein af ástæðum þess eru fjölbýlin. Hvers virði er að losna við allt þetta fyrir veikt fólk?

Tími einyrkjans í heilbrigðisþjónustu er liðinn. Henni er nú sinnt af teymum og samstarf og samvinna eru lykilorð. Samstarfið verður að vera sjálfsagt frá fyrsta ári í skóla, þannig að mikilvægi þess verði mönnum strax ljóst. Skilyrði þess er að koma nemendum heilbrigðisdeilda saman undir eitt þak. Þjónustan verður ætíð að snúast um sjúklinga. Þess vegna þarf að lækka múra milli fag- og sérgreina, það er skilyrði samstarfs. Þess vegna þarf fólk að koma saman og vinna saman að rannsóknum, kennslu og þjónustu. Tækjabúnaður er dýr og því mikið hagræði af samnýtingu. Hún fæst ekki ef starfsemin er áfram dreifð um allar koppagrundir. Þetta eru einungis nokkrar ástæður fyrir því af hverju kominn er tími á nýtt hús, núna.

Að síðustu verður að minna á að sameiningu spítalanna er ekki lokið. Henni lýkur ekki fyrr en starfsemin er öll komin undir sama þak.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×