Lífið

Í anda bistróstaða frá New York

Stefán Melsteð og Sigurgísli Bjarnason á nýja veitingastaðnum Snaps sem opnar á Óðinstorgi.
Stefán Melsteð og Sigurgísli Bjarnason á nýja veitingastaðnum Snaps sem opnar á Óðinstorgi. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
„Þetta verður mjög skemmtilegur staður,“ segir Sigurgísli Bjarnason. Boðið verður upp á snafsa, smurbrauð og klassískan bistrómat á nýjum veitingastað, Snaps, sem opnar á Óðinstorgi á næstunni þar sem áður var Brauðbær. „Staðurinn er búinn að taka rosalegum breytingum,“ segir Sigurgísli, sem rekur einnig veitingastaðinn Nings. Meðeigandi hans að Snaps er kokkurinn Stefán Melsteð sem starfaði áður á Hotel d"Anglaterre í Kaupmannahöfn.

Lagt verður upp með að halda í gömlu hefðirnar bæði hvað matseðlinn og útlitið varðar, í anda staða á borð við Pastis og Balthasar í New York og Café Victor í Kaupmannahöfn. Fenginn var leikmyndahönnuðinn Hálfdán Pedersen til að aðstoða við hönnunina. Hann hefur áður komið að hönnun Kex Hostel og verslunarinnar Geysi. „Hann setti rauða þráðinn í þessu og hefur staðið sig mjög vel.“

Að sögn Sigurgísla verður Snaps ekki dýr veitingastaður. Áhersla verður lögð á þægilega stemningu með lifandi tónlist og nýlega var fest kaup á gömlu píanói frá Sauðárkróki. Gömul ljós frá Kaffi Óperu í Lækjargötu og marmaraborð frá gamla Hressingarskálanum prýða staðinn einnig.

Hótel Óðinsvé er í sama húsi og Snaps og verður staðurinn í samstarfi við hótelið. Gamli inngangurinn sem var framan á húsinu verður notaður á nýjan leik. „Við lofum góðri stemningu en umfram allt góðum mat,“ segir Sigurgísli. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.