Skoðun

Hatur og málfrelsi

Ég er einn þeirra sem er orðinn leiður á því að sitja undir því að Snorra í Betel finnist mínar fallegustu tilfinningar vera dauðasynd. Verra þykir mér að hann fái að tjá hatur sitt á bloggi sem er eyrnamerkt einum af stærstu fjölmiðlum landsins, en allra verst þykir mér að maður sem viðrar opinberlega sínar hatursfullu skoðanir á samkynhneigðum sinni kennslu barna og um leið uppeldishlutverki á launum frá hinu opinbera.

Málfrelsi og kennarastarfið

Það er málfrelsi á Íslandi og ef Snorri kýs að tjá sig um hneigðir samborgara sinna þá er honum það frjálst. Upp að vissu marki. Snorri heldur úti blogginu www.snorribetel.blog.is þar sem hann fordæmir og vitnar í biblíuna máli sínu til stuðnings. Þetta blogg hans hefur verið mörgum þyrnir í augum og hefur Snorri nú verið sendur í leyfi á launum frá Brekkuskóla á Akureyri vegna sífelldrar áráttu hans að tjá á vefnum skoðanir sínar á samkynhneigðum. Áhyggjur foreldra barna við skólann af því að Snorri muni halda skoðunum sínum að börnunum eru nefndar í samhengi við leyfið.

Þeir sem verja Snorra, auk hans sjálfs, segja að tjáning mannsins og svo starf hans með börnunum sé tvennt ólíkt, og að með brottvikningu sé brotið á tjáningarfrelsi hans. En er frelsi barnakennara til tjáningar ótakmarkað? Leyfum okkur, til gamans, að snúa dæminu við. Ef ég væri barnakennari sem myndi skrifa hatursfull ummæli um múslíma á netið - segja þá syndara vegna trúhneigðar sinnar og að laun þeirrar syndar væri dauði, myndi mér vera stætt á því að kenna áfram við barnaskóla?

Ef ég væri annálaður kvenhatari og bloggaði þess efnis, myndi ég geta réttlætt það að starfa með börnum? Ég held ekki, sama hvort hægt væri að sanna á mig að ég væri að viðra skoðanir mínar við börnin eða ekki. Tjáning mín væri kannski ekki ólögmæt, en engu að síður á gráu svæði gagnvart því uppeldishlutverki sem kennslustarfið er og siðareglum þess efnis.

Hatursfull orðræða, fjölmiðlar og hálfkák

Sem betur fer búum við í samfélagi þar sem hatursfull orð manna eins og Snorra í Betel eru fordæmd af flestum. Flestir hatursmenn samkynhneigðra tjá sig þar af leiðandi lítið um málaflokkinn á opinberum vettvangi heldur halda orðum sínum fyrir sig og skoðanabræður sína og –systur. Mér blöskrar hins vegar að Snorri fái að tjá sig óáreittur um sín mál á blog.is, bloggsystur Moggans.

Ekki vegna þess að ég sé svo mikill fasisti inn við beinið að ég sé á móti tjáningarfrelsi, heldur vegna þess að tjáningin er í gegn um bloggvef sem er rekinn af fjölmiðli. Blog.is er, ef marka má tengil á forsíðunni, rekinn eftir ákveðnum siðareglum sem notendur verða að fara eftir. Í þeim segir meðal annars; „Notanda er óheimilt að miðla eða dreifa efni sem felur í sér áreiti, hótanir eða telst vera ærumeiðandi, óviðurkvæmilegt, klámfengið eða kann að vera til þess fallið að brjóta í bága við lög og reglur. Notanda er óheimilt að miðla háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, sbr.233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Nú er ég enginn lögfræðingur, en mér finnst borðleggjandi að orð Snorra í Betel, þar sem hann talar meðal annars um að samkynhneigð sé dauðasynd og að laun syndarinnar sé dauði, séu í það minnsta á gráu svæði gagnvart þessum siðareglum blog.is.

Varnarmenn Snorra segja hann aðeins vera að hafa eftir orð úr biblíunni. Snúum því líka á haus. Ef ég myndi segja á blog.is að allar íslenskar konur væru dræsur og vitna máli mínu til stuðnings í bókina Bang Iceland, sem varð alræmd hérna um árið, væri ég þá sjálfkrafa búinn að fría mig ábyrgð á skoðunum mínum? Gleymum því ekki, mitt í allri umræðunni um að Snorri „sé bara að vitna í biblíuna“, að kirkjan er búin að vinsa ansi frjálslega úr biblíunni í gegnum tíðina þegar kemur að því sem má og má ekki. Ég efast til dæmis um að Snorri segi mikið við því að íslenskar konur sofi ekki í tjaldi úti í garði þegar þær eru á túr.

Mér lék forvitni á að vita hvað mbl.is/blog.is myndi segja um málið. Því sendi ég eftirfarandi spurningar á forsvarsmenn tjáningarbáknsins og óskaði eftir opinberri yfirlýsingu um málið;

Finnst forráðamönnum blog.is í lagi að Snorri í Betel (snorribetel.blogg.is) noti vefinn til að miðla hatursfullum og óviðurkvæmilegum skilaboðum sínum í garð samkynhneigðra, sem og annarra sem falla ekki í mót evangelískra trúarskoðana hans? Er blog.is vettvangur öfgafulls trúboðs eins og fer fram á síðu Snorra?

Ég fékk þetta svar:

Sæll Bjartmar, bloggið sem þú vísar til var á dögunum tekið út úr hópi þeirra blogga sem birtast á mbl.is. Að auki hefur verið lokað fyrir fréttatengingar viðkomandi.

Að svo stöddu verður ekki gefin út opinber yfirlýsing um málið af okkar hálfu.

Einu viðbrögð mbl.is/blog.is voru sem sagt þau að skera á augljósustu tengingu bloggsins við fjölmiðilinn til að fólk tengdi ekki eins augljóslega saman Moggann og hatur í garð samkynhneigðra. Að vernda vörumerkið en leyfa Snorra þó áfram að blogga undir væng blog.is. Einnig, til þess að forðast að taka skýra afstöðu í málinu, átti ekki að gefa út formlega yfirlýsingu um málið. Sambærileg voru viðbrögðin á Akureyri, þegar Snorri var settur í launað leyfi eftir að hafa ekki farið eftir tilmælum um að hætta að tjá sig á blogginu um samkynhneigða. Ef við skoðum hálfvolg viðbrögð skólastjórnenda og fjölmiðilsins er niðurstaðan þessi: Snorri í Betel getur haldið áfram að tjá hatur sitt í gegnum blog.is á launum frá hinu opinbera.

Hvers konar skilaboð sendir það til samkynhneigðra, aðstandenda þeirra og til barnanna á Akureyri, samkynhneigðra sem og gagnkynhneigðra?

Almennt er besta leiðin til að koma skilaboðum áleiðis sú að hafa þau sem skýrust. Viðbrögðin á Akureyri og hjá blog.is eru hins vegar óskýr, orð Snorra eru fordæmd með hálfkáksaðgerðum sem hafa í raun ekkert að segja og afleiðingarnar eru engar. Ég kalla því eftir skýrari svörum í þessu máli og því að fjölmiðillinn og skólakerfið taki raunverulega afstöðu. Miðill með skýrar siðareglur ætti að úrskurða um það hvort tjáning Snorra sé brot á þessum reglum eða ekki og það sama gildir á Akureyri. Samræmast opinber orð Snorra siðareglum kennara eða ekki? Ef ekki, láta aðgerðir vera í samræmi við afstöðuna og gefa út yfirlýsingu þess efnis. Ekki bara senda manninn í launað leyfi þar til fjölmiðlar gleyma málinu og enginn nennir að pönkast lengur. Ef þetta mál er ekki tæklað núna verður aldrei til sátt um það hvers konar orðræða líðst á opinberum vettvangi.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×