Lífið

Tobba flýr Kópavog

Þorbjörg Marínósdóttir og Karl Sigurðsson flytja í nýja íbúð á Ránargötu í byrjun sumars.
Þorbjörg Marínósdóttir og Karl Sigurðsson flytja í nýja íbúð á Ránargötu í byrjun sumars. Fréttablaðið/anton
„Í ljósi aðstæðna kveð ég ekki með miklu trega," segir Þorbjörg Marínósdóttir, rithöfundur og kynningarfulltrúi Skjásins, sem hefur fest kaup á sinni fyrstu íbúð í 101 Reykjavík og kveður þar með Kópavog.

Þorbjörg, eða Tobba eins og hún er kölluð, hefur ávallt verið gallharður Kópavogsbúi enda búið þar alla sína ævi. Nú hefur hún fest kaup á íbúð á Ránargötu ásamt kærasta sínum, borgarfulltrúanum Karli Sigurðssyni. „Þetta eru heilmikil tímamót fyrir mig, fyrsta íbúðin og kveðja Kópavog. Sama dag og við skrifuðum undir kaupsamning komst Gunnar Birgisson aftur til valda í Kópavogi svo ég verð eiginlega bara að prísa mig sæla yfir að vera að fara," segir Tobba en þau fá íbúðina afhenta í byrjun júní.

Tobba segist ætla að aðhyllast umhverfisvænum lífstíl í kjölfar flutninga niður í miðbæ enda eigi hún svo vistvænan mann. „Ég þarf að fara að fjárfesta í flatbotna skóm því við Kalli ætlum að fækka bílnum niður einn og reyna að hjóla og skokka í vinnuna þegar við getum. Það verður líka meiri háttar að geta loksins fengið sér hvítvínsglas með vinkonunum án þess að spá í leigubíl heim."

Tobba hefur þegar sagt íbúðinni sinni í Kópavogi upp og flytur til Kalla á Ásvallagötuna þangað til þau fá nýju íbúðina afhenta. „Hann býr í ekta piparsveinaíbúð og ég í miklum vandræðum að koma fötunum mínum fyrir þar. Þess vegna verð ég að selja í Kolaportinu 25. febrúar og losa um. Ekki veitir heldur af fjármagningu þegar maður en búinn að steypa sér í skuldir."- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.