Lífið

Sólóplata og opinberun

Frank Ocean þykir efnilegur tónlistarmaður. Sólóplata hans hefur slegið í gegn.
Frank Ocean þykir efnilegur tónlistarmaður. Sólóplata hans hefur slegið í gegn. nordicohotos/getty
Frank Ocean sendi frá sér plötuna Channel Orange þann 10. júlí. Platan þykir stórvirki innan R‘n‘B-tónlistarstefnunnar.

Tónlistarmaðurinn Frank Ocean sendi frá sér plötuna Channel Orange þann 10. þessa mánaðar. Ocean hóf feril sinn sem lagahöfundur fyrir tónlistarfólk á borð við Justin Bieber, Brandy og John Legend. Hann gekk til liðs við hipphoppsveitina OFWGKTA árið 2010 og sama ár gaf hann út mixdiskinn Nostalgia á vefsíðu sinni því útgáfufyrirtækið Def Jam hafði dregið fæturna í útgáfu disksins. Nostalgia vakti athygli Kanye West, Jay-Z og Beyoncé á Ocean og greiddi það götu hans í útgáfu Channel Orange, en sú plata hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda sem flestir gefa henni fullt hús stiga. Lögin á Channel Orange eru sem ferskur blær inn í R‘n‘B-stefnuna en Ocean virðist einnig sækja innblástur til tónlistarsnillinga á borð við Stevie Wonder og textarnir þykja einlægir og vel ritaðir.

Ocean er fæddur í New Orleans árið 1987 og er skírnarnafn hans Christopher „Lonny“ Breaux. Hann ólst upp við djasstónlistaráhuga móður sinnar og sem unglingur sinnti hann hinum ýmsu verkum í þeim tilgangi að safna nægu fé fyrir tíma í hljóðveri. „Ég gerði ýmislegt fyrir peninga. Ég þreif bíla, sló grasið hjá nágrönnunum og fór í göngutúra með hunda,“ sagði Ocean um þann tíma. Hljóðverið skemmdist aftur á móti þegar fellibylurinn Katrina reið yfir New Orleans og í kjölfarið flutti Ocean til Los Angeles. Þar komst hann í kynni við meðlimi OFWGKTA og gekk nokkru síðar til liðs við sveitina. Ocean breytti nafni sínu í Christopher Francis William Ocean árið 2010 og sagði hann eftirnafnið vera fengið úr hinni upprunalegu kvikmynd Ocean‘s 11.

Ocean kom út úr skápnum í byrjun mánaðarins, aðeins nokkrum dögum fyrir útgáfudag Channel Orange, og vilja margir meina að vegna tímasetningarinnar sé um auglýsingabrellu að ræða. Svo mun þó ekki vera og ritaði upptökustjórinn Russell Simmons í tímaritið Global Grind að dagurinn sem Ocean opinberaði kynhneigð sína væri stór dagur fyrir hipphoppbransann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.