Skoðun

Nasasalurinn fær ekki að standa, nema þú mótmælir

Helgi Þorláksson skrifar
30.júní sl. var í Fréttablaðinu fyrirsögnin „Nasa fær að standa áfram við Austurvöll“. Í undirfyrirsögn segir að samkvæmt vinningstillögu verði ekkert hús rifið. Þá var vísað í tillögu sem hlaut fyrstu verðlaun í „Samkeppni um uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur“. Þetta er alrangt, hinn sögufrægi Nasasalur við Austurvöll fær ekki að standa og starfsemi sem fer fram í nýjum sal verður tengd hótelrekstri. Þeim sem vilja mótmæla niðurrifinu er bent á www.ekkihotel.is.

Í skýringum með umræddri tillögu segir m.a.:

Ekki er talið raunsætt að vernda húshlutann sem hýsir skemmtistaðinn Nasa, samkvæmt tillögum er sá hluti fjarlægður og byggður upp aftur í breyttri mynd. Byggður verði nýr salur, eins konar kjallari – og hann byggður í mynd núverandi salar… (Tekið upp úr texta á sýningu í Landsímahúsi við Kirkjustræti; hún var opnuð 29. júní sl. Leturbreytingar hér.).

Segir enn fremur að þennan nýja sal skuli nota fyrir fundi og ráðstefnur í tengslum við nýtt hótel. Má gera ráð fyrir að hugmyndir í þessari tillögu verði meginviðmiðun í meðförum arkitekta, skipulagsráðs í Reykjavík og skipulagsstjóra, nema fólk spyrni við fótum.

Þann 10. júlí var í Fréttablaðinu umfjöllun um málið og stendur þar í millifyrirsögn „Nasa haldi sér“. Er þá vísað til viðtals við annan tveggja höfunda tillögunnar sem hlaut fyrstu verðlaun og segir þar að komi til greina að nota í nýjum sal „einhverjar af sömu innréttingunum“ sem eru í núverandi sal. Arkitektinn segir enn fremur að gert sé ráð fyrir að hægt verði „að nota salinn fyrir tónleika- og skemmtanahald“. Þetta kemur ekki vel heim við það sem eigandi salarins segir í Morgunblaðinu 6. júlí sl., í nýja salnum skuli vera skemmtanir og ráðstefnur í tengslum við hótelið sem reisa skal, segir hann. Sé hugsanlegt að þarna verði skemmtistaður en hann verði þá fyrst og fremst hluti af hótelrekstrinum. Eigandinn leggur áherslu á að Nasa hafi verið lokað fyrir fullt og allt. „Þetta verður ekki Nasa,“ segir hann, og nefnir ekki flutning gamalla innréttinga í nýja salinn.

Hér er verið að tala ýmist um Nasasalinn sjálfan, þe. salinn frá 1946, eða fyrirtækið sem rak starfsemi í salnum undir Nasanafninu. En hvort sem er, hvort tveggja er úr sögunni á þessum stað, verði hugmyndir eigandans að veruleika. Nasasalurinn verður þá rifinn og allt á huldu um hvort tónleikar og dans í kunnum stíl verði í hinum nýja sal. Ekki er að sjá að eigandinn hafi áhuga á slíku.

Sinnuleysi olli því að Naustið og Reykjavíkurapótek voru eyðilögð. Látum ekki Nasasalinn í Sjálfstæðishúsinu gamla verða slíkri eyðileggingu að bráð. Sættum okkur ekki við óljósar hugmyndir um að einhverjar innréttingar úr gamla salnum verði e.t.v. fluttar í hinn nýja. Öflug mótmæli á www. ekkihotel.is hafa áhrif á borgarfulltrúa og stuðla að friðun.




Skoðun

Sjá meira


×