Erlent

Drápu apa og svæfðu hinn

Frá aðgerðum lögreglunnar.
Frá aðgerðum lögreglunnar.
Lögreglan í Las Vegas þarf að sinna fjölbreyttum útköllum í starfi sínu. En sennilega kom eitt sérkennilegasta útkallið í dag þegar lögreglan fékk tilkynningu um tvo tryllta simpansa úti á götu í íbúðahverfi. Annar þeirra sat ofan á bifreið á meðan hinn barði ítrekað ofan á þakið á mannlausum lögreglubíl.

Þrátt fyrir að simpansar hafi heldur krúttlegan blæ yfir sér í huga almennings, þá er um frekar hættulegar skepnur að ræða. Báðir aparnir eru hátt í 80 kíló á þyngd. Því sendi lögreglan út tilkynningu á svæðinu þar sem íbúar voru beðnir um að halda sig innandyra á meðan unnið væri að því að fanga dýrin.

Lögreglan í Las Vegas segir í viðtali við fjölmiðla að ekki hafi annað verið hægt en að drepa annan apann, en þeim tókst að skjóta svefnlyfjum í hinn. Svo virðist sem aparnir hafi flúið af einkaheimili en málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×