Erlent

Hundrað látnir eftir að olíubíll sprakk

Atvikið átti sér stað í Rivers-héraði í Nígeríu.
Atvikið átti sér stað í Rivers-héraði í Nígeríu. mynd/Google
Að minnsta kosti 100 létust þegar olíuflutningabíll varð eldi að bráð í suðurhluta Nígeríu fyrr í dag.

Talið er að ökumaðurinn hafi misst stjórn á flutningabílnum með þeim afleiðingum að hann lenti á þremur öðrum bílum. Við það kom gat á olíutankinn.

Yfirvöld segja að íbúar svæðisins hafi þá hlaupið að bílnum í þeirri von að ná sér í eldsneyti. Fjölmenni var síðan við flutningabílinn þegar eldur komst í olíuna með fyrrgreindum afleiðingum.

Fjölmargir létust í sprengingunni, aðrir hlupu á brott í ljósum logum. Líklegt þykir að tala látinna eigi eftir að hækka verulega.

Vegaöryggi í Nígeríu er afar ábótavant og eru alvarleg bílslys daglegt brauð þar í landi. Mikil fátækt er í landinu og eldsneyti dýrt, þrátt fyrir að Nígería sé umfangsmikill útflutningsaðili olíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×