Erlent

Segist nú hafa mismælt sig

Janne Kristiansen Sagði af sér sem yfirmaður norsku leyniþjónustunnar eftir að hafa mismælt sig – eða talað af sér.
Janne Kristiansen Sagði af sér sem yfirmaður norsku leyniþjónustunnar eftir að hafa mismælt sig – eða talað af sér. nordicphotos/AFP
Janne Kristiansen, fyrrverandi yfirmaður norsku leyniþjónustunnar, segist hafa mismælt sig þegar hún fullyrti á miðvikudag að norskir njósnarar væru að störfum í Pakistan. Hún hafi eingöngu átt við tengilið lögreglunnar.

Hún sagði af sér í gær vegna málsins, en nú krefjast pakistönsk stjórnvöld svara og vilja fá nánari útskýringar á njósnum Norðmanna þar í landi.

Í norskum fjölmiðlum er haft eftir Vegard Valther Hansen, sérfræðingi um njósnir, að ummæli hennar geti stefnt öryggi hugsanlegra norskra njósnara í Pakistan í voða. Ummælin geti einnig stefnt tengiliðum norskra njósnara í Pakistan í hættu, og þá geti ummælin einnig reynst öðrum Norðmönnum í Pakistan hættuleg, því á þá geti fallið grunur um að þeir séu að stunda njósnir.

Norska leyniþjónustan hefur aldrei sagt neitt af eða á um það, hvort erindrekar á hennar vegum séu að störfum í Pakistan. Um slíkt tjáir stofnunin sig ekki.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×