Innlent

Páfagaukur býður í afmælið sitt

Páfagaukurinn á það til að reyna að herma eftir Bubba Morthens þegar vel liggur á honum.
mynd/Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Páfagaukurinn á það til að reyna að herma eftir Bubba Morthens þegar vel liggur á honum. mynd/Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Páfagaukurinn Olli, eða Ollie Kinchin eins og hann heitir fullu nafni, heldur upp á tvítugsafmælið sitt í dag. Af því tilefni tekur hann á móti gestum í miðasölu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins á opnunartíma og gerir það sem honum finnst skemmtilegast; hitta fólk, segja „halló“ og bjóða því upp á hnetur.

Olli er af ættkvísl páfagauka sem lifa villtir í Eyjaálfu og nefnast kakadúar. Þeir eru af ýmsum stærðum og mismunandi litum allt eftir tegundum. Sameiginlegt með þeim er að allir hafa þeir topp sem þeir geta reist og tjáð tilfinningar sínar með. Olli er svokallaður hvíttoppur og þeir lifa villtir á eyjum Indónesíu.

Afmælisdagurinn er reiknaður út frá þeim tíma er Olli klaktist úr eggi 2. október 1992 í Flórída í Bandaríkjunum. Páfagaukurinn hefur undanfarið ár verið í umsjá forstöðumanns Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Tómasar Óskars Guðjónssonar, og verður það til ársloka 2013 þar sem eigendur hans, þau Árni Jensson og Karen Kinchin, eru búsett erlendis til þess tíma. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×