Innlent

Betri skattinnheimta skilaði 10 milljarða tekjum árið 2011

Snorri Olsen
Snorri Olsen
Innheimta skatttekna hefur batnað síðustu árin en hún tók smá dýfu eftir hrun. 1. júlí höfðu 96,4% verið innheimt af sköttum. Þar er átt við staðgreiðslu, tryggingargjald, virðisaukaskatt og þinggjöld á einstaklinga og fyrirtæki.

Skúli Olsen tollstjóri segir töluna reyndar vera fljótandi, hún sýni aðeins stöðuna á þeirri stundu þegar mælingin er gerð. Geri skattstjóri áætlun á fyrirtæki daginn eftir mælinguna aukist höfuðstóllinn og innheimtuárangur fer því eilítið niður.

"Þarna mælum við bara þá skatta sem við höfum bein áhrif á með innheimtuaðgerðum. Þetta er vísbending fyrir okkur sem innheimtumenn um hvernig við erum að standa okkur." Betri innheimta á milli áranna 2011 og 2010 skilaði um tíu milljörðum króna meira í ríkissjóð. Við það bætist að skattstofninn sjálfur jókst um 13 milljarða og því eru auknar tekjur af stærri skattstofni og betri innheimtu alls 23 milljarðar króna.

Skattstofninn er um 481 milljarður króna, sem er svipað og árið 2005. ?Það þarf ekki að koma neinum á óvart, vegna þess að skattar hafa verið að hækka. Virðisaukaskattur og tekjuskattur hafa til dæmis hækkað. Einhver hluti af þessu getur líka verið aukin velta,? segir Skúli.

Hann segir árangurinn í innheimtu ánægjulegan, ekki síst þegar litið er til síðustu tíu ára.

"Einhver gæti sagt að það sé skrítið að ekki hafi náðst 100% árangur í innheimtu á þeim árum þegar nóg var til af peningum. En þá voru menn kannski að fara í fjárfestingar sem voru kannski ekki eins vel ígrundaðar og er í dag. Nú færðu ekki peninga til að prófa eitthvað," segir Skúli. "Ef ég á að lesa eitthvað út úr þessu þá er það það að þeir sem eru að fara af stað í dag séu að fara út í traustari rekstur."

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir betri innheimtu fyrirtækja benda til þess að búið sé að vinsa skussana út úr rekstri. Vonandi hafi menn lært það af hruninu að vera passasamir varðandi skuldir.

Spurður hvort þetta þýði að hærri skattar skili sér ekki í verri innheimtu segir Pétur öðru máli gegna með svokölluð rimlagjöld en aðra skatta, en með því er átt við gjöld sem varðar fangelsisrefsingu að svíkjast undan.

"Það má segja að komið sé upp mjög sterkt kerfi í innheimtu skatta og innheimtumenn hafi náð góðum árangri."

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×