Erlent

Vopnabirgðir uppreisnarmanna þverra

Sýrlenskir hermenn taka sér stöðu gegn uppreisnarmönnum sem skortir vopn til að halda aftur af þungum árásum stjórnarhersins.nordicphotos/afp
Sýrlenskir hermenn taka sér stöðu gegn uppreisnarmönnum sem skortir vopn til að halda aftur af þungum árásum stjórnarhersins.nordicphotos/afp
Sýrlenskir uppreisnarmenn eiga við vanda að etja því skotfæri þeirra eru nú af skornum skammti. Stjórnarher Bashars al-Assad gerir enn þungar árásir á virkisborgina Aleppo í norðurhluta landsins.

„Við berjumst með AK-47 hríðskotarifflum gegn orrustuþotum,“ sagði Mohammad al-Hassan, uppreisnarmaður í helsta virki uppreisnarmanna í Aleppo, þegar hann lýsti bardögum síðustu daga. „Ég veit ekki hversu lengi við höldum þetta út.“

Annar uppreisnarmaður í Aleppo sagði sýrlenska herinn láta sprengjum rigna yfir hverfi á valdi uppreisnarmanna. Bráðlega væri ekkert eftir til að rústa í borginni eftir tveggja vikna bardaga þar.

Íranar kölluðu saman þrjátíu fulltrúa jafnmargra þjóðríkja í gær. Fundurinn var meðal annars sóttur af fulltrúum Rússlands og Kína en ólíklegt er talið að hann hafi mikið vægi á alþjóðavísu. Fundurinn er einnig talinn merki um staðfastan stuðning Írans við stjórnvöld í Sýrlandi. Íranar segja markmiðið hafa verið að skerpa umræðuna í alþjóðasamfélaginu um ástandið í Sýrlandi.

Bandaríkin sniðgengu fundinn og sögðu hegðan Írana hafa vond áhrif á ástandið í Sýrlandi. Þá sendu Bretar uppreisnarmönnum fimm milljón punda hjálparaðstoð til viðbótar við það sem þeir höfðu áður sent. Styrkurinn er að andvirði tæplega eins milljarðs íslenskra króna.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×