Viðskipti innlent

Segir málsmeðferð í máli Gunnars bera keim af sýndarréttarhöldum

Skúli Bjarnason, hrl. gætir hagsmuna Gunnars Andersen. Hann spyr stjórn FME í nýju bréfi hvort málið sé enn til rannsóknar.
Skúli Bjarnason, hrl. gætir hagsmuna Gunnars Andersen. Hann spyr stjórn FME í nýju bréfi hvort málið sé enn til rannsóknar.
Skúli Bjarnason, lögmaður Gunnars Þ. Andersen, telur að málsmeðferð FME í máli umbjóðanda hans beri keim af sýndarréttarhöldum. Hann telur að stjórn FME hafi ekki nema að litlu leyti svarað spurningum sem hann lagði fram fyrir hönd Gunnars og áréttar ósk um á hvaða nýju gögnum ákvörðun stjórnarinnar sé byggð. Þá furðar hann sig á heimsókn dökkhærðrar konu á skrifstofu sinni, sem birtist þar með ómerkt gögn.

Gunnari var tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn, sem taka átti gildi um næstu mánaðarmót með sex mánaða uppsagnarfresti, í boðsendu bréfi sem honum barst sl. föstudagskvöld. Í kjölfarið hafa vaknað spurningar um lögmæti ákvörðunar stjórnar FME, en lögmaður Gunnars hefur óskað eftir upplýsingum um á hvaða nýju gögnum stjórnin byggði ákvörðun sína að segja Gunnari upp störfum.

„Í gær barst á skrifstofu mína í ómerktu umslagi skjalabunki sem telur 123 blaðsíður, glærukynningar, skýrslur, fundargerðir o.fl. Ekkert fylgibréf var heldur með sendingu þessari. Aðspurður kvaðst sendiboðinn, liðlega þrítug dökkhærð kona, vera frá FME. Staðfesting óskast á því að svo sé. Öll voru þessi gögn kunnugleg og virðast stafa frá rannsókn Andra Árnasonar nr. II," segir Skúli í bréfi sínu sem hann sendi stjórn FME í dag, en bréfið er svar við bréfi stjórnar FME sem sent var sl. sunnudagskvöld.

Þarna er Skúli að vitna til álitsgerðar Andra sem tvívegis komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við hæfi Gunnars sem forstjóra FME.

Skúli segir að ekki liggi fyrir hvað af þessum gögnum, sem hann fékk í gær, hafi eða eigi að hafa sett mál Gunnars í einhverjan nýjan farveg.

Þá spyr Skúli hvort málið sé enn til rannsóknar. Þeirri spurningu sé algjörlega enn ósvarað. Þá segir Skúli að stjórn FME hafi ekki enn svarað því hvers vegna hún telji niðurstöðu Ástráðs Haraldssonar hrl. og Ásbjarnar Björnssonar endurskoðanda hafa meira vægi en álitsgerðir Andra Árnasonar. „Þessari spurningu er auðvitað enn ósvarað. Hún er auðvitað enn áhugaverðari í ljósi þess að Andri aflaði þó sjálfstætt fjölmargra gagna í sinni rannsókn en Ástráður engra," segir Skúli í bréfinu.

Þá segir Skúli að stjórn FME hafi ekki svarað fyrri andmælum Gunnars, sem Gunnar sendi þegar unnið var að álitsgerð þeirra Ástráðs og Ásbjarnar. Skúli segir að ekkert tillit hafi verið tekið til þessara andmæla og þeirra hafi ekki einu sinni verið getið. „Óneitanlega ber þessi málsmeðferð keim af svokölluðum sýndarréttarhöldum. Það virðist sem svo að þeir Ástráður og Ásbjörn hafi hvorki leitað nýrra gagna né hirt um að kanna sannleiksgildi staðhæfinga umbjóðanda míns um grundvallaratriði þessa máls, þ.e að fyrir hartnær 11 árum var það niðurstaða ítarlegrar skoðunar að það væri réttara að telja umrædd félög ekki með. Væri þetta skoðað til fulls fellur að sjálfsögðu hinn meinti blekkingarþáttur og málatilbúnaðurinn hrynur," segir Skúli. Þá fer hann fram á að málið verði fellt niður.


Tengdar fréttir

Þurfa líklega enn frekari frest til svara

Ekki hafa borist fullnægjandi svör frá stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) við spurningum sem Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, sendi henni á mánudag vegna fyrirhugaðrar uppsagnar hans.

Telja að rýrð sé kastað á hæfi Gunnars - greinargerðin birt

Ástráður Haraldsson og Ásbjörn Björnsson telja að fram hafi komið upplýsingar um atvik í starfi Gunnars Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, fyrir aflandsfélög Landsbankans sem séu til þess fallnar að kasta rýrð á hæfi hans til að gegna starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Þetta kemur fram í áliti sem þeir unnu fyrir stjórn FME og sent hefur verið fjölmiðlum.

Krefst ítarlegri gagna vegna fyrirhugaðrar uppsagnar

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, vill lengri frest til að andmæla fyrirhugaðri uppsögn stjórnar FME. Hann gerir margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð stjórnarinnar í tengslum við fyrirhugaða uppsögn en hún barst til Gunnars í boðsendu bréfi að kvöldi föstudagsins 17. febrúar.

"Kynnt sú fyrirætlan stjórnar FME að segja þér upp störfum"

Í bréfi frá stjórn Fjármálaeftirlitsins sem Gunnar Þ. Andersen forstjóri stofnunarinnar fékk boðsent til sín sl. föstudag segir: "(E)r þér með þessu bréfi kynnt sú fyrirætlan stjórnar FME að segja þér upp störfum sem forstjora stofnunarinnar. Uppsögnin er með sex mánaða fyrirvara frá næstu mánaðamótum.“

Steingrímur: Hafði engin afskipti af ákvörðun stjórnar FME

Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, gerði Steingrími J. Sigfússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, grein fyrir uppsagnarferli Gunnars Þ. Andersen á fundi í síðustu viku. Steingrímur segir að fundurinn hafi einungis verið í upplýsingaskyni og að hann hafi ekki haf afskipti af ákvörðun stjórnarinnar. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Steingrím um fundinn í óundirbúnum fyrirspurnum í dag. Steingrímur sagði í fréttum Stöðvar 2 á sunnudaginn að hann hefði frétt af uppsögn Gunnars Þ. Andersen í fjölmiðlum á föstudaginn en samkvæmt svari Steingríms á Alþingi í dag fundaði hann með stjórninni í sömu viku. Samkvæmt Steingrími var tilgangur fundarins með stjórn FME verið að greina honum og öðrum starfsmönnum í ráðuneytinu frá stöðu mála. Þar hafi honum verið tjáð að þetta ferli hafi verið í gangi í nokkurn tíma og verið væri að afla gagna frá lögmönnum. Þá hafi honum verið tjáð að þegar niðurstaða væri komin í málið yrði rætt við Gunnar og reynt að leysa málið. Hann þvertekur fyrir að hafa vitað af uppsögn forstjórans. Í svari sínu til Gunnars Braga undirstrikaði hann að Fjármálaeftirlitið væri sjálfstæð stofnun og færi með sín mál. "Ég fullyrði það að í þessum samskiptum okkar hefur algjörlega verið farið eftir því,“ sagði Steingrímur.

Stjórnarformaður FME segir Gunnar ekki vera rekinn

Stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) tilkynnti Gunnari Þ. Andersen, forstjóra stofnunarinnar, á föstudag að til standi að segja honum upp störfum. Gunnar hefur gegnt starfi forstjóra FME frá því í apríl 2009 en hann hefur frest til dagsins í dag til að andmæla ákvörðun stjórnarinnar.

Andmælaréttur Gunnars lengdur

Stjórn Fjármálaeftirlitsins ákvað á fundi sínum í gærkvöldi að lengja andmælarétt Gunnars Andersen forstjóra við uppsögn hans, fram á fimmtudagskvöld.

Telja heimild skorta fyrir starfsuppsögn

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), hefur farið fram á að fá rýmri frest til þess að andmæla boðaðri uppsögn hans. Lögmaður Gunnars sendi stjórn FME bréf þessa efnis í gær, þegar rann út frestur sem Gunnari hafði verið gefinn. Stjórn FME fundaði um málið í gærkvöld. Fundinum var ekki lokið þegar Fréttablaðið fór í prentun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×