Skoðun

Heima og að heiman!

Jónas Þórir Þórisson skrifar
Nú er það skóladótið sem Hjálparstarf kirkjunnar er að deila út; stílabækur, reiknivélar, möppur, plasthulstur og allt hitt sem foreldrar skólabarna þekkja af innkaupalista skólanna. Þetta getur orðið býsna stór biti þar sem börnin eru fleiri en eitt og tekjurnar lágar. Auk þess hafa börnin vaxið og ný stígvél, kuldagalli, húfur og íþróttaföt eru oft líka á listanum. Þessu svarar Hjálparstarfið með gjöfum af eigin lager eða inneignarkorti í verslun. Þetta er mikils metin aðstoð og stór liður í aðaláherslu Hjálparstarfsins að hlúa að börnum – að þau finni sem minnst fyrir kreppu og fátækt foreldra. Allir skila inn gögnum um tekjur og útgjöld svo fjármunum Hjálparstarfsins sé sem best varið.

Jafnvel enn mikilvægara en skóladótið í grunnskólanum, er að styðja unglinga til að ljúka framhaldsskóla. Þeir eiga ekki kost á námslánum og þeir sem sækja til Hjálparstarfsins eiga ekki bakhjarl er getur stutt þá fjárhagslega. Þarna skapast hættutímabil sem Hjálparstarfinu er mikið í mun að brúa – halda ungmennum í skóla þar til þau öðlast starfsréttindi eða komast í lánshæft nám. Þörf hópsins sem stendur í þessum sporum kom fyrst í ljós í gegnum viðtöl félagsráðgjafa og foreldra sem sóttu um aðstoð Hjálparstarfsins. Nú vinna með okkur námsráðgjafar í skólum og félagsráðgjafar um allt land, til að koma auga á þessa krakka og vísa þeim á aðstoð. Við erum stolt af því að rjúfa þarna vítahring lítillar menntunar og láglaunastarfa með aðstoð vegna skólagjalda, bókakaupa og öðrum stuðningi eftir aðstæðum.

Á meðan á þessum haustönnum stendur heima, glíma mörg lönd í Afríku við uppskerubest og hungur og þar á meðal eru íbúar í Malaví en þar hefur Hjálparstarfið sinnt hjálparstarfi í mörg ár sem hefur það markmið að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Hjálparstarfið hefur sótt um styrk til utanríkisráðuneytisins, á móti eigin framlagi, til að brúa þar bilið til næsta uppskerutíma. Hjálparstarf kirkjunnar hefur skyldum að gegna heima og erlendis. Með þinni hjálp reynum við að standa okkur í stykkinu. Vefurinn framlag.is er alltaf opinn.




Skoðun

Sjá meira


×