Innlent

Vinátta Dana og Íslendings leiddi af sér saltverksmiðju

Vinátta Íslendings og Dana, sem kynntust þegar þeir voru í námi í Árósum í Danmörku fyrir fjórum árum, tók óvænta stefnu í sumar þegar þeir ákváðu að reisa saltverksmiðju á Reykhólum. Byrjað var að reisa verksmiðjuna nú desember.

Þeir Garðar og Sören urðu strax miklir mátar. Garðar hefur nokkra reynslu af saltframleiðslu og leist Söreni vel á þegar hann stakk upp á því að þeir reistu saltverksmiðju á Reykhólum. Eftir nokkra vinnu hófst svo bygging verksmiðjunnar í hafnargarðinum á Reykhólum í byrjun desember en húsið verður um 500 fermetrar.

„Við erum með smið sem er að byggja það og við líka búnir að vera í þessu sjálfir, járnabinda og svoleiðis. Til að byrja með erum við að stefna á að fá tvo til þrjá starfsmenn eða eitthvað svoleiðis með tímanum verður það vonandi meira," segir Sören Rosenkilde, annar eigandi Íslenska saltfélagsins.

Saltið verður unnið úr sjónum í Breiðarfirði og hveravatn notað til að sjóða sjóinn en Reykhólar eru öflugt jarðhita- og hversvæði. Framleiðslan verður umhverfisvæn

„ Þetta er umhverfisvæn framleiðsla en aðrir framleiðendur á sama markaði nota til dæmis gas eða timbur eða kol til að knýja fram þessa suðu en við losnum algjörlega við það því notum þessa aldagömlu íslensku dönsku aðferð við að sjóða sjó sem er bara einsdæmi í heiminum," segir Garðar Stefánsson, eigandi Íslenska saltfélagsins.

Þeir félagar vonast til að saltið verði komið á markað næsta vor. Þangað til í haust hafði Sören aldei búið á Íslandi en eiginkona hans er íslensk. Hann segist heillaður af landi og þjóð og spenntur fyrir verkefninu.

„Þetta er algjört ævintýraferð og vera með í að gera eitthvað svona flott. Ég er mjög spenntur fyrir þessu, það er bara algjört ævintýri," segir Garðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×