Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að enski miðjumaðurinn Jack Wilshere snúi ekki aftur á knattspyrnuvöllinn fyrr en í október í fyrsta lagi. Guardian greinir frá þessu.
Wenger hafði fram til þessa ekki viljað spá fyrir um endurkomu Wilshere sem hefur verið frá keppni vegna ökkla- og hnémeiðsla í rúmt ár. Franski stjórinn tjáði sig um málið fyrir æfingaleikinn gegn Kitchee í gær sem lauk með 2-2 jafntefli.
„Vonandi fáum við Wilshere aftur í október. Að fá hann tilbaka auk Abou Diaby verður það eins og við höfum keypt tvo nýja leikmenn. Hópurinn verður sterkur og mikil samkeppni í honum í ár," sagði Wenger.
Verði Wilshere ekki klár í slaginn fyrr en í október líkt og Wenger spáir mun hann missa af tveimur fyrstu leikjum enska landsliðsins í undankeppni HM 2014.
Arsenal gerði 2-2 jafntefli í gegn Kitchee en leikurinn markaði lokin á æfingaferð Lundúnarfélagsins í Hong Kong.
