Erlent

Átök í Sýrlandi magnast áfram

Þungamiðja borgarastríðsins hefur undanfarið verið í Aleppo, stærstu borg Sýrlands. Uppreisnarmenn hafa náð stjórn á nokkrum hverfum í borginni.Fréttablaðið/AP
Þungamiðja borgarastríðsins hefur undanfarið verið í Aleppo, stærstu borg Sýrlands. Uppreisnarmenn hafa náð stjórn á nokkrum hverfum í borginni.Fréttablaðið/AP
Ríflega 1.300 Sýrlendingar flúðu frá landinu til Tyrklands í skjóli nætur aðfaranótt þriðjudags. Stöðugur straumur flóttamanna hefur verið frá Sýrlandi síðustu mánuði eftir því sem borgarastríðið þar í landi hefur færst í aukana.

Bardagar hafa geisað síðustu daga milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna í höfuðborginni Damaskus sem og í Aleppo, stærstu borg landsins. Stjórnarherinn hefur reynt að hrekja uppreisnarmennina út úr borgunum tveimur en ekki haft erindi sem erfiði þrátt fyrir umsvifamiklar árásir.

Þá gerði stjórnarherinn á mánudag sprengjuárás á bæinn Tal Rafaat sem er skammt frá landamærum Tyrklands. Flúðu ríflega 1.300 íbúar í borginni yfir til Tyrklands í kjölfarið en alls hafa um 48 þúsund Sýrlendingar flúið til Tyrklands meðan á átökunum hefur staðið.

Bashar al-Assad forseti hitti í gær sendinefnd frá Íran en þarlend stjórnvöld styðja stjórn Assads í baráttu sinni við uppreisnarmennina. Sýrlenskir fjölmiðlar greindu frá því í kjölfarið að Assad hefði heitið því á fundinum að berjast áfram.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×