Erlent

Hart barist í borgum landsins

Í sýrlenskum flóttamannabúðum í Tyrklandi kom til átaka við lögreglu í gær og yfirgáfu þá margir búðirnar.nordicphotos/AFP
Í sýrlenskum flóttamannabúðum í Tyrklandi kom til átaka við lögreglu í gær og yfirgáfu þá margir búðirnar.nordicphotos/AFP
Sýrlenskir uppreisnarmenn berjast nú gegn stjórnarhernum í Aleppo, stærstu borg landsins, og segjast bjartsýnir á að ná henni á vald sitt. Talið er að um þúsund uppreisnarmenn hafi ráðist inn í borgina en stjórnarherinn beitti bæði þyrlum og þungavopnum.

Átök geisuðu einnig í höfuborginni Damaskus í gær, þar sem stjórnarherinn reynir að ná hverfum borgarinnar aftur úr höndum uppreisnarmanna.

Árásirnar á Aleppo benda til þess að uppreisnarmenn telji stöðu sína sterka, ekki síst eftir að nokkrir nánir samstarfsmenn Bashar al Assads forseta féllu í sjálfsvígsárás í vikunni.

Átökin hafa á síðustu dögum verið að berast í æ ríkari mæli inn í stærstu borgir landsins, en hafa hingað til meira verið bundin við smærri borgir og dreifbýlli héruð.

Sýrlenska ríkissjónvarpið reyndi þó að gera sem minnst úr átökunum, sagði aðeins að stjórnarherinn væri að elta uppi hryðjuverkamenn og drepa þá í stórum stíl.

Átökin í þessum mánuði hafa verið þau mannskæðustu frá upphafi í Sýrlandi. Mannréttindasamtök segja að nærri 20 þúsund manns hafi látið lífið í átökum frá því uppreisnin gegn Assad hófst snemma á síðasta ári. Þar af hafa átökin í júlí nú þegar kostað nærri 2.800 manns lífið, eða álíka marga og létust í síðasta mánuði.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×