Erlent

Setningarathöfn ÓL stytt um hálftíma

Allir með strætó Forsvarsmenn Ólympíuleikanna í London hafa stytt setningarathöfn leikanna til að allir komist heim með almenningssamgöngum. NordicPhotos/AFP
Allir með strætó Forsvarsmenn Ólympíuleikanna í London hafa stytt setningarathöfn leikanna til að allir komist heim með almenningssamgöngum. NordicPhotos/AFP
Setningarathöfn Ólympíuleikanna í London hefur verið stytt um hálftíma til að öruggt sé að gestir geti haldið heim á leið áður en almenningsfarartæki hætta að ganga.

Skipuleggjandi hátíðarinnar, kvikmyndaleikstjórinn frægi Danny Boyle, þarf af þessum sökum að sleppa nokkrum atriðum, þar á meðal glæfralegu vélhjólaatriði.

Jackie Brock-Doyle, talskona skipulagsnefndar Ólympíuleikanna, þvertekur fyrir að niðurskurðurinn tengist vandræðum vegna öryggismála, en eins og fram hefur komið brást öryggisfyrirtækið G4S fyrirheitum um að útvega gæslufólk, sem varð til þess að hermenn voru kallaðir út til að fylla í skörðin. Þá sé heldur ekkert hæft í því að Boyle sé ósáttur við breytingarnar. „Hann er verðlaunaleikstjóri og ég held að hann skilji mætavel að sumt er klippt út fyrir lokaútgáfuna,“ sagði Brock-Doyle.

Setningarathöfnin mun standa í þrjár klukkustundir og mun samkvæmt áætlun ljúka um klukkan hálf eitt eftir miðnætti.

Kostnaðaráætlun athafnarinnar er um 27 milljónir punda, sem jafngildir um fimm og hálfum milljarði íslenskra króna. Yfirskriftin er „Undraeyjurnar“ og munu tíu þúsund manns taka þátt í sýningunni.

Leikarnir verða settir 27. júlí. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×