Innlent

Sáttur við frumvarpið en vill gera breytingar erfiðari

Nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þurfa að fara yfir mikið af gögnum varðandi nýja stjórnarskrá. Lögfræðingarnir Páll Þórhallsson og Hafsteinn Þór Hauksson voru einnig gestir á fundinum í gær.
Nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þurfa að fara yfir mikið af gögnum varðandi nýja stjórnarskrá. Lögfræðingarnir Páll Þórhallsson og Hafsteinn Þór Hauksson voru einnig gestir á fundinum í gær. fréttablaðið/gva
Þjóðréttarfræðingur segir endurbætur felast í frumvarpi um stjórnarskrá og líst vel á það. Vill þó að erfiðara verði að breyta stjórnarskránni. Dómstólar verði að skera úr um hvort eignarréttur hafi myndast um kvóta.

Guðmundur Alfreðsson, þjóðréttarfræðingur í Strassborg, segir að sér lítist að mörgu leyti vel á frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um nýja stjórnarskrá. Þar sé að finna endurbætur á núgildandi stjórnarskrá. Guðmundur var gestur á fundi nefndarinnar í gær og tjáði skoðanir sínar í gegnum síma frá Strassborg.

Sérstaklega var Guðmundur ánægður með mannréttindakafla nýrrar stjórnarskrár sem hann sagði mjög til bóta. Þó lýsti hann þeirri skoðun sinni að stofna bæri sjálfstæða mannréttindastofnun sem hefði á hendi mál tengd þeim málaflokki. Unnið er að slíkri stofnun í innanríkisráðuneytinu, en Guðmundur taldi mikilvægt að hún væri ekki bundin boðvaldi ráðherra.

Guðmundur sagði hins vegar að rauð ljós hefðu kviknað hjá sér þegar kom að tveimur greinum; 111. og 113. Sú fyrri lýtur að framsali ríkisvalds og kveður á um að feli lög í sér verulegt valdaframsal skuli þau sett í þjóðaratkvæði. 113. greinin snýr að breytingum á stjórnarskránni, en það er álit Guðmundar að of auðvelt sé að breyta henni samkvæmt frumvarpinu.

„Almennt er það svo í öllum vestrænum ríkjum að það sé miklu erfiðara að breyta stjórnarskrá en almennum lögum. Það er gert til þess að stjórnarskrá sé kjölfesta og menn láti ekki stjórnast af dægurmálum og tilfinningum samtímans þegar eitthvað mikið gengur yfir.

Í núgildandi stjórnarskrá er það mjög erfitt, óvenjulega erfitt eins og reynslan sannar. Kannski allt of erfitt.“

Guðmundur segir hins vegar að í frumvarpinu sé þetta allt of auðvelt, aðeins þurfi einfalda samþykkt á Alþingi og einfaldan meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hvatti nefndarmenn til að setja þröskulda. Það mætti gera með kröfu um samþykkt aukins meirihluta á Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×