Innlent

"Gaman að gera eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður“

Höskuldur Kári Schram skrifar
Jón Gnarr
Jón Gnarr
Jón Gnarr borgarstjóri íhugar nú að bjóða sig fram fyrir Bjarta framtíð í næstu alþingiskosningum. Hann segist þó ekki hafa haft tíma til að ræða málið ítarlega við sína stuðningsmenn.

Hluti Besta flokksins hyggur á framboð undir merkjum Bjartrar framtíðar í næstu alþingiskosningum, þar á meðal Óttar Proppé, borgarfulltrúi og Heiða Kristín Helgadóttir, kosningastjóri Besta flokksins.

Á opnum spurningatíma á vefsíðunni reddit.com í gær sagðist Jón Gnarr einnig vera íhuga framboð.

„Ég er að hugleiða það, er ekki verið að tala um að það vanti gott fólk á þing," segir Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík.

Sp. blm. Fyrir hvaða flokk þá?

„Þá mundi vera Björt framtíð því það er flokkurinn er Óttar Proppé er í," svarar Jón.

Jón segist ekki hafa haft tíma til að ræða þetta við sína stuðningsmenn.

„Ég er búinn að vera mjög upptekinn í fjárhagsáætlunarvinnu og í það hefur allur minn tími farið, frá 8 á morgnanna til átta á kvöldin. Þá er lítill áhugi á svona vangaveltum um einhverjar pólitískar hugsjónir en nú fer að hægjast um og ég hef meiri tíma til þess að hugsa og ræða."

Sp. blm. Fer það saman að vera borgarstjóri og þingmaður?

„Það er eitt, ég veit það ekki, hefur það einhvern tíma verið gert? Svo hef ég náttúrulega gaman að gera eitthvað sem ekki hefur verið gert áður."

Sp. blm. Þannig að þú ert að íhuga þetta af alvöru?

„Ég er að gera það já," svarar Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×