Innlent

Fótboltakonur unnu af alefli gegn einelti

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Liðsmenn íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta fá í dag viðurkenningu fyrir að hafa unnið af alefli gegn einelti í samfélaginu en hópurinn gaf nýverið út lag og myndband til stuðnings baráttunni. Baráttudagur gegn einelti er í dag og er þjóðin hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu, ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Hátíðardagskrá verður að þessu tilefni í Þjóðmenningarhúsinu og hefst hún með hljóðgjörningi og eru landsmenn hvattir til að þeyta bílflautur eða framkalla einhvers konar bjöllu- eða klukknahljóm frá klukkan eitt til sjö mínútur yfir eitt. Þar á eftir, allt til klukkan hálf fjögur verður fjallað um einelti frá öllum hliðum og verða sérstök hvatningarverðlaun veitt.

"Flestir held ég á Íslandi þekkja nú að kvennalandsliðið í fótbolta gaf út lag gegn einelti sem er afskaplega flott og hægt er að nálgast á Youtube. Þær fá í dag hvatningarverðlaun til þeirra aðila sem hafa látið gott af sér leiða og haldið umræðu um skaðsemi eineltis úti í samfélaginu. Þau verðlaun veitir Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, en hún er einmitt sú sem kom þessu verkefni á fót árið 2010 og á mikið hrós skilið fyrir það," segir Ágústa Gústafsdóttir, formaður verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti og bendir Landsmönnum á mikilvægi þjóðarsáttmálans gegn einelti sem má nálgast á gegneinelti.is.

"Þetta er kannski líka ágætis tækifæri til þess að fara í smá vitundarvakningu inná vinnustöðum, að vinnustaðir taki sig saman, að allir skuldbindi sig til að skrifa undir. Þá getum við fjallað um það hvernig vinnustað og vinnumenningu við viljum hafa hjá okkur. Og í skólaumhverfinu, hvers konar kennslustofu og hvers konar skóla. Þannig erum við að fá fram þessi snjóboltaáhrif." segir Ágústa.

Rúmlega Níuþúsund og fimmhundruð Íslendingar hafa nú skrifað undir og vonast Ágústa til að þær verði mun fleiri í lok dags. "Ég hef mikla trú, Íslendingar, við erum skynsöm og fljót að átta okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×