Innlent

Sykurskatturinn gæti aukið neyslu á sælgæti

BBI skrifar
Mynd/Stefán Karlsson
Embætti Landlæknis gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til breytinga á lögum um vörugjöld á matvælum, en með þeim á að hækka vörugjöld á sykur. Tillögurnar þykja ekki vel útfærðar í núverandi mynd, munu ekki hvetja til aukinnar hollustu og einhverjar líkur á að þær auki sælgætisát.

Frumvarpið er liður í tekjuöflunaráformum ríkisstjórnarinnar sem komu fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar er áformað að hækka sykurskatt úr 60 í 210 krónur á kíló og er eitt helsta markmiðið að fá fólk til að borða hollari mat og sneiða hjá óhollustu. Landlæknisembættið segir ólíklegt að það markmið muni nást ef tillögurnar eru samþykktar óbreyttar.

Sykurgjöldin munu leggjast jafnt á allar vörur sem innihalda sykur og vörugjöldin á hverja vöru miðast við hlutfall af viðbættum sykri. Þannig fer það eftir magni sykurs í vörunni hvort gjöld á hana hækka frá því sem áður var. Til dæmis munu vörugjöld á súkkulaði lækka ef magn sykurs í því er undir 48% en annars munu þau hækka.

Landlæknisembættið segir að gjöld á gosdrykki muni hækka um 5 krónur á lítra, sem þykir lítið, og gjöld á súkkulaði lækka um 16 krónur á kíló.

„Þetta eru þær vörutegundir sem vega hvað þyngst í sykurneyslu landsmanna," segir í umsögn embættisins. „Ekki er hægt að segja að sú leið sem valin hefur verið taki nægjanlega mið af manneldissjónarmiðum og mun því ekki hafa mikil áhrif til bættrar lýðheilsu. Hækka þyrfti vörugjöld á sykri talsvert meira en nú er gert til þess að það skili hækkun sem einhverju nemur á þessum vörum sem vega þyngst í sykurneyslu landsmanna."

Landlæknisembættið bendir á að bein hækkun vörugjalda á gosdrykki og sælgæti væri árangursríkari leið til að draga úr sykurneyslu landsmanna.

Hér má nálgast umsögn Landslæknisembættisins í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×