Innlent

Lykillinn að setja sjálfa sig ekki í fyrsta sæti

Gunnar Reynir skrifar
Oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík norður telur að það muni ganga vel fyrir hið nýja stjórnmálaafl að vinna með gömlu flokunum á þingi, nái þau á annað borð fólki inn í næstu kosningum. Hún segir að flokkurinn ætli að láta verkin tala.

Eins og við greindum frá í fréttum okkar í gær mun Björt Ólafsdóttir leiða lista Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi alþingiskosningum. Björt hefur ekki komið að stjórnmálastarfi áður en hún hefur verið formaður Geðhjálpar undanfarin tvö ár. Hún segir að með Bjartri Framtíð starfi einstaklingar sem vilja nýja nálgun í stjórnmálin.

„Með samvinnu, jöfnuð og ábyrgð að leiðarljósi, vinna að betri framtíð fyrir Ísland," segir Björt.

Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup mælist Björt framtíð með um átta prósenta fylgi og er eina nýja stjórnmálaaflið sem nær mönnum á þing. Hvernig leggst það í Björt, komist hún á þing, að fara að vinna með þeim flokkum sem þar eru fyrir á fleti?

„Það er gott fólk alls staðar og ég held að það sé einmitt lykillinn hjá Bjartri Framtíð, það er þessi samvinna. Að setja sjálfa sig ekki endilega í fyrsta sæti heldur átta sig á að þeir sem eru kosnir á þing eru þar til þess að vinna saman í þessum mikilvægu málum öllum," segir Björt.

Það er margt sem tengir Bjarta framtíð við Besta flokkinn í Reykjavík og Björt er ánægð með það.

„Ég var mjög hrifin af því hvernig Besti flokkurinn kom öllum að óvörum með ákveðna kaldhæðni en sannleiksgildi þar að baki. Jú við getum lofað öllu fögru, en svo verða bara verkin að tala. Ég held að verkin hafi talað nokkuð vel þar og vona að það verði eins hjá Bjartri framtíð," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×