Innlent

Reisa 230 íbúðir við Þverholt og Einholt

Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu íbúða á 3 til 5 hæðum á suðurhluta reits, en norðurhlutinn er að mestu óbreyttur. Á suðurhluta er gert ráð fyrir fjölbreyttum gerðum íbúða og bílageymslum á tveimur hæðum í kjallara.mynd/ask arkitektar
Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu íbúða á 3 til 5 hæðum á suðurhluta reits, en norðurhlutinn er að mestu óbreyttur. Á suðurhluta er gert ráð fyrir fjölbreyttum gerðum íbúða og bílageymslum á tveimur hæðum í kjallara.mynd/ask arkitektar
Búseti hyggur á byggingu 230 íbúða á reit sem markast af Einholti, Stórholti, Þverholti og Háteigsvegi. Deiliskipulag á svæðinu var fellt úr gildi og nýtt skipulag, sem gerir ráð fyrir byggingunum, var kynnt hagsmunaaðilum á fimmtudag. Verði skipulagið að veruleika gætu framkvæmdir hafist næsta vor.

Byggingarfélag námsmanna átti reitinn, en til stóð að reisa allt að 500 íbúðir á svæðinu. Við gjaldþrot félagsins eignaðist fasteignafélagið Reginn reitinn. Hann var boðinn út í fyrrahaust og síðan gengið að tilboði Búseta í mars.

Guðrún Ingvarsdóttir, verkefnisstjóri þróunarverkefna hjá Búseta, segir félagið hafa fundað með fulltrúum íbúasamtaka áður en gengið var til samninga um kaup á reitnum. Hugmyndir Búseta hafi fallið í góðan jarðveg og því hafi orðið af verkefninu.

„Ef allt gengur vel vonumst við til þess að skipulagið verði frágengið í lok árs. Þá getum við hafið framkvæmdir í vor og hægt verður að flytja inn í fyrstu íbúðir árið 2014.“ Guðrún segir framkvæmdir líklega verða í þremur áföngum og ekki líði nema ár á milli áfanganna.

Steinunn Þórhallsdóttir, formaður Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíðar, Holt og Norðurmýri) segir ferlið í kringum hugmyndir Byggingarfélags námsmanna hafa einkennst af miklum yfirgangi.

„Þarna er núna djúp og sorgleg hola í jörðina, sem sprengd var við mikil mótmæli íbúa í kring í góðærinu.“ Hún er ánægð með framgang málsins hjá Búseta, uppbyggingin lúti allt öðrum lögmálum, húsin séu færri og lægri.

„Þau hafa verið í samráði við íbúasamtökin og eru að reyna að virkja sem flesta í að hafa skoðun á þessu áður en þau skila inn skipulagstillögu.“

Skipulagið var kynnt hagsmunaaðilum á fundi á fimmtudag og gefst öllum kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×