Erlent

Alríkisdómari mælir fyrir lögleiðingu marijúana

Bandaríski alríkisdómarinn og lögspekingurinn Richard A. Posner sagði í vikunni að afnema ætti refsistefnu yfirvalda í Bandaríkjunum vegna neyslu og sölu kannabisefna. Hann sagði að lögleiðing kannabiss í landinu væri rökrétt þróun og að stór hluti fíkniefnalaga væri í raun óþarfi.

„Það er fjarstæðukennt að refsa fólki fyrir að eiga eða dreifa marijúana," sagði Posner. „Ég sé í raun engan mun á neyslu slíkra efna og sígaretta."

Posner lét ummælin falla þegar hann hélt erindi í Elmhurst háskólanum í Illinois fyrr í vikunni. Posner er afar áhrifamikill dómari við áfrýjunardómstól í Chicago. Þá er hann vafalaust kunnugur mörgum löglærðum einstaklingum enda hefur hann skrifað rúmlega fjörutíu bækur um lögvísi og hagfræði.

„Að sama skapi er ég efins um fíkniefnalöggjöfina í heild sinni," sagði Posner. „Sú hugmynd að nota refsilöggjöf til að takast á við vandamál fíknar og misbeitingar hættulegra vímuefna er að mínu mati óskynsamleg."

Þá sagði Posner að fíkniefnalöggjöfin í Bandaríkjunum væri ástæðan fyrir því að fangelsi þar í landi væru yfirfull. Hann benti á að lögleiðing kannabiss myndi spara bandaríska ríkinu rúmlega 41 milljarð á ári hverju — eða það sem nemur 5.056 milljörðum íslenskra króna.

Hægt er að horfa á fyrirlestur Posners í heild sinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×