Skoðun

Andrés leynir á sér!

Jón Axel Ólafsson skrifar
Mjög þörf umræða hefur verið um mikilvægi þess að börn og unglingar lesi sér til gagns og gamans. Samkeppnin um tíma barna verður sífellt meiri og fjölbreyttari. Tölvuleikir og netið virðast heilla meira en lestur bóka.

Af því tilefni langar mig að minna á hvað Disney gegnir drjúgu hlutverki þegar kemur að lestri íslenskra barna. Það er augljós staðreynd að Disney-bækur hafa löngum verið vinsælustu lestrarbækur barna á Íslandi. Bækur sem Edda útgáfa gefur út undir merkjum Disney hafa vakið áhuga barna á lestri og stuðlað að hæfni þeirra til að takast á við nám á síðari stigum.

Útgáfa barnaefnis er vandmeðfarin og því er ekkert gefið eftir í gæðum þegar efni frá Disney er annars vegar. Þýðingar á barnabókum eru þar með taldar. Til að mynda hefur hinn virti þýðandi Jón Stefán Kristjánsson þýtt Andrésblöðin sl. átta ár við miklar vinsældir. Aðeins fagfólk kemur að útgáfu bóka og blaða frá Disney og kröfur um rétt og gott málfar eru í öndvegi.

Eins og Jón Stefán þýðandi segir í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni, þann 8. febrúar sl.: „…textinn í Andrés Önd er vel skrifaður. Stundum er hann – kviss, bamm, búmm – einfaldur og aðgengilegur en oft ögrar textinn börnunum og kennir þeim þannig að krakkarnir þurfa virkilega að einbeita sér að lestrinum“.

Bækur frá Disney eru jafnan í efstu sætum sölulista bóksala og útgefenda á hverju ári og gróflega áætlað eru um 60 til 70% af 10 efstu sætunum á hverju ári. Þá eru ekki teknar með bækur sem viðskiptavinir fá í áskrift.

Alls berast um 300 þúsund eintök af íslenskum Disney-blöðum og bókum til íslenskra barna á hverju ári. Eintakafjöldinn segir þó ekki alla söguna, því bækurnar og blöðin eru marglesin og ganga barna á milli, jafnvel árum og áratugum saman.

Samspil mynda og vandaðra þýðinga höfða einstaklega vel til barna og meirihluti þessa lesefnis er keyptur í gegnum einhverja hinna fjögurra Disney áskriftarleiða Eddu útgáfu. Því til viðbótar gefur Edda út fjölbreytt úrval annarra barnabóka á hverju ári og er stærsti útgefandi barnabóka hér á landi.

Andrés Önd, og Andrésblað hans, leynir á sér þegar kemur að lestri íslenskra barna. Þau drekka lesefnið í sig og tengja saman orð og myndir. Andrésblaðið hefur komið út á íslensku í 29 ár og ekkert tímarit hefur fleiri áskrifendur en Andrés Önd sem kemur út vikulega.

Börn þurfa gott lesefni. Foreldrar þurfa að hvetja börn sín til lesturs og lesa reglulega fyrir börnin sín. Við erum öll ábyrg fyrir því að börnin fái gott lesefni.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×