Erlent

Segja vandann við EES skort á lýðræði

Utanríkisráðherra Noregs segir að tvíhliða fríverslunarsamningur við ESB sé ekkert annað en hugarburður.
Utanríkisráðherra Noregs segir að tvíhliða fríverslunarsamningur við ESB sé ekkert annað en hugarburður. nordicphotos/AFP
Norska Evrópunefndin segir EES-samninginn hafa þjónað norskum hagsmunum vel, en gallinn sé sá að Norðmenn taki ekki þátt í ákvörðunum. Utanríkisráðherra Noregs telur EES-samninginn mikilvægari nú fyrir Noreg en árið 1994.

„Noregur er í dag miklu nátengdari ESB en flestir gera sér grein fyrir,“ segir í 900 blaðsíðna skýrslu sem Evrópunefnd norska þingsins kynnti í gær. Nefndin segir að jafnvel þótt höfuðdrættirnir í sambandi Noregs við ESB hafi fyrirfram verið þekktir þá hafi sífellt eitthvað verið að koma nefndarmönnum á óvart í starfinu.

Nefndin hefur undanfarin tvö ár, að beiðni norsku ríkisstjórnarinnar, skoðað alla þætti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og áhrif hans á Noreg.

Niðurstaðan er meðal annars sú að stærsta vandamálið við aðild Noregs að EES felist í því að Noregur hefur skuldbundið sig til þess að hlíta bæði stefnu Evrópusambandsins og lagasafni þess á mjög breiðu sviði, án þess að hafa aðild að ESB eða atkvæðisrétt innan ESB.

„Þetta er það verð sem Noregur greiðir fyrir að njóta ávinningsins af evrópskum samruna án þess að vera meðlimur í þeim samtökum sem knýja áfram þróunina,“ segir í skýrslunni.

Meira en þriðjungur norskra laga er settur á grundvelli eða að kröfu laga Evrópusambandsins. Noregur hefur, rétt eins og Ísland og Liechtenstein, tekið upp meira en sex þúsund lög eða reglugerðir frá Evrópusambandinu.

Noregur hefur hins vegar á þessum tíma aðeins fengið 55 undanþágur frá reglum Evrópusambandsins, en Ísland hefur fengið 349 undanþágur samþykktar og Liechtenstein 1.056.

Nefndin kemst engu að síður að þeirri niðurstöðu að í heildina tekið hafi EES-samningurinn þjónað norskum hagsmunum vel.

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, segir niðurstöður nefndarinnar ekki gefa neitt tilefni til þess að segja upp EES-samningnum. Tvíhliða fríverslunarbandalag við Evrópusambandið, sem norskir andstæðingar samningsins vilja að komi í staðinn, sé ekkert annað en hugarburður.

„Ég tel að samningurinn sé mikilvægari fyrir Noreg í dag en hann var árið 1994,“ segir utanríkisráðherrann í viðtali við norskt dagblað. Kreppan á evrusvæðinu á síðustu árum hafi sýnt enn betur fram á mikilvægi samningsins fyrir Noreg.

Norska nefndin hefur fengið fjölmarga sérfræðinga sér til aðstoðar, þar á meðal Eirík Bergmann Einarsson sem tók saman upplýsingar um áhrif EES á Ísland.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×