Erlent

Sextíu og sjö ár frá kjarnorkuárás

Frá minningarathöfninni í morgun.
Frá minningarathöfninni í morgun. mynd/afp
Í dag eru sextíu og sjö ár liðin frá kjarnorkuárás Bandaríkjamanna á Hírósíma í Japan sem kostaði 140 þúsund manns lífið. Haldin var minningarathöfn í borginni í dag þar sem um 50 þúsund manns söfnuðust saman og minntust árásarinnar.

Á meðal þeirra sem var viðstaddur athöfnina var barnabarn Harry S. Truman, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem fyrirskipaði kjarnorkuárásir á Japan. Fulltrúar 70 þjóða voru á athöfnina á friðartorginu í borginni í dag.

Blóm voru lögð á torgið og vildi Clifton Truman Daniel, barnabarn forsetans fyrrverandi, ekki svara því í viðtölum við fjölmiðla hvort ákvörðun afa síns væri rétt. „Ég er tveimur kynslóðum á eftir. Ábyrgð mín liggur núna í því að gera allt sem ég get til að koma í veg fyrir það kjarnorkuvopn verði ekki notuð aftur," sagði hann.

Þremur dögum eftir árásina á Hirosima var annarri kjarnorkusprengju kastað á borgina Nagasakí og létust 80 þúsund manns í kjölfar þeirrar árásar. Viku síðar lauk seinni heimsstyrjöldinni þegar Japanar gáfust formlega upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×