Innlent

Jólamarkaðurinn skilar fé í matarsjóðinn

BBI skrifar
Ásgerður Jóna, framkvæmdastýra Fjölskylduhjálpar Íslands.
Ásgerður Jóna, framkvæmdastýra Fjölskylduhjálpar Íslands.
Síðasti dagur jólamarkaðar Fjölskylduhjálpar Íslands í Reykjanesbæ er í dag. Markaðurinn hefur verið starfræktur frá 1. nóvember og þar hefur verið hægt að gera framúrskarandi kaup.

„Þetta hefur gengið vonum framar," segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar, en markaðurinn er hluti af fjáröflunarleiðum Fjölskylduhjálparinnar og skilar fé í matarstjóð hennar.

Hingað til hefur fólk getað gert mjög góð kaup á markaðnum en hápunktinum verður náð í dag. „Það verða allar vörur á hundrað krónur. Svo verður hægt að kaupa tíu flíkur á tvö hundruð og auk þess erum við með svarta ruslapoka, fulla af fötum sem hægt er að kaupa á fimm hundruð krónur," segir Ásgerður.

Á markaðnum er verið að selja notuð föt og er síðasti dagurinn í dag. „Þetta hefur verið rosalega gott fyrir íbúa í Reykjanesbæ, því hér er kaupmáttur fólks oft ekki mikill og frábært að fá t.d. hlýja úlpu fyrir þrjú hundruð krónur eða skó," segir Ásgerður.

Markaðurinn er staðsettur við Hafnargötu 90 í Reykjanesbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×