Innlent

Segir tóbaksgjald hafa áhrif á neysluna

Boði Logason skrifar
Vísbendingar eru um að auknar álögur á tóbak hafi áhrif á neyslu - sérstaklega á meðal ungs fólks, segir verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Landlækni. Um áramótin hækkar tóbaksgjaldið um 15% umfram verðlag og gjald á neftóbak verður tvöfaldað.

Við sögðum frá því í kvöldfréttum okkar í gær að gífurleg aukning hefur orðið í sölu á neftóbaki hér á landi. Á átta árum hefur salan aukist um hundrað og fimmtíu prósent, eða frá 12 tonnum árið 2003 yfir í 30 tonn í fyrra. Fimmtán prósent karlmanna á aldrinum 18 til 24 ára taka tóbak í vör daglega og þrettán prósent karla á aldrinum 25 til 34 ára.

Íslenska neftóbakið var upphaflega framleitt sem tóbak í nef en snemma á síðasta áratug fóru ungir íslenskir karlmenn að nota það í vör - þar sem bannað er að selja munntóbak á Íslandi. Það tóbak er hinsvegar þrisvar sinnum sterkara en muntóbak sem neytt er á Norðurlöndunum. Nikótín magnið í því er 2% miðað við 0,75% í sænska munntóbakinu.

Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá embætti Landlæknis, segir að þar sem neftóbaksneysla í vör sé tiltölulega ný hér á landi vanti langtímarannsóknir á skaðseminni.

„Við viljum ekki bera munntóbaksnotkun saman við reykingar. Reykingar eru ekkert sérstakt viðmið varðandi heilsu, þar sem annar hver neytandi deyr fyrir aldur fram. Það er vissulega vöntun á langtímarannsóknum á skaðseminni. Það hafa hinsvegar komið fram vísbendingar um skaðsemina. Ókostir samfara neyslunni eru mjög slæmir, t.d. mikil fíkn. Ungir karlmenn verða mjög háðir munntóbaki," segir Viðar.

Um áramótin verður tóbaksgjald hækkað um 15 prósent umfram verðlag og gjald á neftóbak verður tvöfaldað. Mun það draga úr neyslunni?

„Já ég vona það. Það eru allar vísbendingar um að auknar álögur hafi áhrif á neyslu, sérstaklega á meðal ungs fólks," segir Viðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×