Innlent

Þingmenn huga að jólahléi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður Vinstri Grænna.
Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður Vinstri Grænna.
Formenn þingflokka funda um helgina og reyna að komast að samkomulagi um jólahlé. Álfheiður Ingadóttir þingflokksformaður Vinstri grænna segist bjartsýn á að einn til tveir dagar nægi til umfram dagskrá þingsins og að hægt verði að gera hlé í lok næstu viku.

Formenn þingflokkanna ætla að hittast klukkan þrjú í dag til þess að freista þess að greiða úr störfum þingsins og komast að niðurstöðu um dagsetningu á Jólahléi.

„Ég vona að þessu málþófi út af rammaáætlun sé lokið og við getum gengið til þess að afgreiða mál eins og þarf, sérstaklega fjárlög og önnur brýn mál. Og gera það svona með sæmilegum skikk fyrir jólahlé þingsins," segir Álfheiður.

En hvenær býst hún við að komast í jólafrí?

„Ég tel nú að við þurfum tvo daga til viðbótar við starfsáætlun, þannig að við gætum verið hér fimmtudag og föstudag í næstu viku. En ef vel gengur þá gæti fimmtudagurinn dugað," segir hún.

Hlé var gert á umræðunni um rammaáætlun í gærkvöldi, en hvernig sér Álfheiður framhaldið?

„Við hittumst hér á mánudag og við skulum vona að það náist samkomulag um dagskrána, ekki bara mánudag heldur alla vikuna, til þess að við getum lokið þessu með skikkanlegum hætti. Annars er okkur ekkert að vanbúnaði að vera hérna alla næstu viku og eins milli jóla og nýárs þó það séu ekki nema tveir dagar," segir Álfheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×