Innlent

Grátt gaman ef neyðarkallið var gabb

BBI skrifar
Leit hefur nú verið hætt á Þorskafjarðarheiði eftir að neyðarkall barst þaðan um tvö leytið í dag. Tvær björgunarsveitir hafa leitað á svæðinu síðan og hvergi fundið nein merki um að fólk hafi verið þar á ferð nýlega.

„Það kemur alveg til greina að þetta hafi verið gabb," segir Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu. „Við viljum ekkert fullyrða um það í bili. En ef það er þannig þá er það bara fremur grátt gaman og ekkert sniðugt við það."

Allt í allt hafa milli tíu til tuttugu manns komið að leitinni í dag að sögn Jónasar. „Heiðin er ekin fram og til baka og þetta er bara tími og kostnaður," segir Jónas.

„Við erum búnir að fara yfir þetta allt og það er hvergi neitt sem bendir til þess að menn hafi verið þarna á ferð í vandræðum. Við útilokum það ekki strax en í bili höfum við ekkert til að fara eftir," segir Jónas. Leitinni hefur því verið hætt í bili. „Það finnast engin verksummerki, engir slóðar eða neitt."

Neyðarkallið var ekki skýrt og ekki tókst að staðsetja það. Fyrst heyrðist: Mayday mayday, föst inni í bíl uppi á heiði. Í kjölfarið fylgdu miklir skruðningar og læti en svo heyrðist sagt Þorskafjarðarheiði og því var leitað þar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×