Lífið

Kiwanuka er bjartasta von BBC

Sálarsöngvarinn Michael Kiwanuka hefur verið kjörinn bjartasta von ársins 2012 af breska ríkisútvarpinu, BBC. Honum hefur verið líkt við Bill Withers sem er þekktur fyrir lög á borð við Ain"t No Sunshine og Just the Two of Us. Þrír af helstu áhrifavöldum Kiwanuka eru Otis Redding, Bob Dylan og Miles Davis.

„Þetta kom mér mjög á óvart. Vonandi mun tónlistin mín ná til fleira fólks og það eru mikil forréttindi fyrir tónlistarmann eins og mig," sagði Kiwanuka. Í öðru sæti á listanum lenti Frank Ocean sem hefur unnið bæði með Kanye West og Jay-Z og í því þriðja varð rapparinn Azelia Banks frá New York.

Kiwanuka hefur hitað upp bæði fyrir Adele og Lauru Marling á tónleikaferðum og þykir hafa ýmislegt til brunns að bera. „Ég valdi Michael vegna þess að tónlistin hans hreif mig þegar ég heyrði fyrst í honum í sumar," sagði gagnrýnandi London Evening Standard í viðtali við BBC.

Alls tóku 184 tónlistargagnrýnendur, útvarpsmenn og bloggarar sem eru búsettir í Bretlandi þátt í valinu, sem fór nú fram í tíunda sinn. Á meðal fyrri sigurvegara eru Jessie J, Adele, Mika, Ellie Goulding, Corrinne Bailey Rae, Keane og 50 Cent. Margir þekktir flytjendur hafa komist á topp fimm á listanum, eða The Vaccines, Hurts, Florence and the Machine, Bloc Party og Franz Ferdinand.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.