Fótbolti

Prandelli, þjálfari Ítala: Ferillinn hans Balotelli er bara rétt að byrja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli fagnar í gær.
Mario Balotelli fagnar í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cesare Prandelli, þjálfari Ítala, lagði frábærlega upp undanúrslitaleikinn á móti Þjóðverjum í gærkvöldi og það hefur heldur betur borgað sig hjá honum að veðja á Mario Balotelli. Balotelli skoraði bæði mörk Ítala í 2-1 sigri og er einn markahæstu leikmanna keppninnar með þrjú mörk.

„Mario er einstakur leikmaður og ekki leikmaður sem við erum vanir að sjá. Hann er mjög sterkur og berst fyrir liðið. Hann er líka alltaf til staðar þegar við þurfum á honum að halda og hann er baráttuglaður í vítateignum," sagði Cesare Prandelli og bætti við:

„Ferillinn hans Balotelli er bara rétt að byrja," sagði Prandelli sem sagði framlengingin á móti Englandi hafa setið í sínu liði í lokin.

„Við vorum mjög þreyttir síðustu tíu mínútunar ekki síst vegna þess að við spiluðum í 120 mínútur fyrir fjórum dögum og völlurinn var þungur. Við fengum fjögur færi til að komast í 3-0 en ef þú nýtir ekki færin í fótbolta þá getur þú lent í vandræðum í lokin sem og gerðist," sagði Prandelli.

„Ég er mjög stoltur af mínu liði. Þeir eru mjög góðir, ungir en mjög öflugir. Við erum lið sem er að spila eftir sinni hugmyndafræði allan tímann. Við höfum líka magnaða leikmenn eins og (Andrea) Pirlo en ég ætla ekki að skrifa minningargrein um hann því við eigum einn mikilvægan leik eftir," sagði Prandelli.

„Þegar maður dreymir þá dreymir maður stóra drauma. Þetta er bara byrjunin á draumi okkar," sagði Prandelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×