Innlent

Sakar ríkisstjórnina um svikin loforð

Höskuldur Kári Schram skrifar
Forseti Alþýðusambandsins segir tilgangslaust eiga frekari viðræður við ríkisstjórnina í tengslum við endurskoðun kjarasamninga. Stjórnvöld hafi margbrotið gefin loforð og eina rétta í stöðunni sé að þreyja þorrann fram að næstu kosningum.

Alþýðusambandið birti í dag heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu þar sem ríkisstjórnin er sökuð um að hafa svikið þau loforð sem gefin voru við gerð kjarasamninga í maí á síðasta ári. Meðal annars hafi ekki verið staðið við hækkun atvinnuleysisbóta, gengi krónunnar hafi ekki styrkst, verðbólgumarkmið hafi ekki náðst og ekki hafi verið staðið við aðgerðir í atvinnumálum.

Formenn aðildarfélaga ASÍ funduðu um endurskoðun kjarasamninga á Grand Hóteli í dag en ef til uppsagnar kemur þarf að segja samningnum upp fyrir 21. janúar. Forseti ASÍ segir að forsendur samnings séu brostnar. Verðbólgan sé of há og gengið alltof veikt.

„En að sama skapi eru forsendur okkar við stjórnvöld, bæði efnisleg loforð um einstakar ákvarðanir en líka samstarf um stefnumörkun hvað varðar gengi, efnahagsmál og atvinnumál, atvinnuuppbyggingu út í vindinum. Við vorum að fjalla um það hvernig við eigum að snúa okkur í þessu," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

„Og það var niðurstaða okkar formanna, samþykkja þá tillögu okkar í samninganefndinni að við munum ekki eiga frekari viðræður við stjórnvöld. Við teljum það tilgangslaust. Við ætlum ekki að fara í fimma sinn í slíka erindagjörð. Við verðum að bara að þreyja þorranna. Það eru kosningar í vor."

Gylfi segir að margt hafi gengið vel í samstarfi við ríkisstjórnina.

„En það er líka alveg ljóst að það er margt af því sem okkur var gefið fyrirheit um hluti sem ekki hefur tekist. Sumt er svo alvarlegt, eins og skattlagning lífeyrisréttinda eða sinnuleysi í atvinnumálum, það er ekki lengra haldið í því. Við sjáum engan tilgang í því í ljósi þeirrar umræðu sem er inni á alþingi að halda því áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×