Erlent

Fornar beinagrindur í miðri Mexíkóborg

Höskuldur Kári Schram skrifar
Fornleifafræðingar í Mexíkó hafa fundið fimmtán beinagrindur í grafreit sem talinn er vera frá tímum Asteka. Grafreiturinn fannst á byggingarsvæði í miðri Mexíkóborg.

Fornleifafræðingar hafa lengi haft augastað á svæðinu þar sem grafreiturinn fannst enda bentu heimildir til þess að þarna hefði staðið þorp fyrir þúsund árum. Þegar byggingarframkvæmdir hófust á svæðinu fengu fornleifræðingar loks tækifæri að til að kanna það betur.

Beinagrindurnar sem hafa fundist eru flestar af börnum en þrjár þeirra tilheyra fullorðnum einstaklingum. Innanum grafirnar hafa einnig fundist munir á borð við flautur, skálar og reykelsi.

„Fólk til forna trúði í senn á líf og dauða og þar af leiðandi gróf það hina dauðu á sama stað og það sjálft bjó. Í þessu tilviki var um að ræða sjálfan miðbæinn. Svo að þetta var í senn almenningsstaður, notaður fyrir alls kyns hátíðir og atburði, og grafreitur," segir Alejandra Jasso Pena, fornleifafræðingur á svæðinu.

Grafreiturinn er talinn vera frá elleftu eða tólftu öld eða frá þeim tíma þegar Astekar réðu ríkjum í Mið-Ameríku. Höfuðborg Asteka var staðsett í Mexíkódal þar sem Mexíkóborg stendur nú en heimsveldi þeirra leið undir lok á sextándu öld þegar Spánverjar lögðu undir sig Suður- og Mið-Ameríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×