Lífið

Leggja undir sig Eyrarbakka

Anna G. Magnúsdóttir hjá kvikmyndafélaginu Hughrifum er framleiðandi sænsku myndarinnar Hemma, sem verður tekin upp hér á Íslandi frá og með morgundeginum.
Anna G. Magnúsdóttir hjá kvikmyndafélaginu Hughrifum er framleiðandi sænsku myndarinnar Hemma, sem verður tekin upp hér á Íslandi frá og með morgundeginum.
„Myndin verður tekin upp 99% á Íslandi og þá aðallega á Eyrarbakka, en þó aðeins í Reykjavík líka,“ segir Anna G. Magnúsdóttir, framleiðandi sænsku myndarinnar Hemma.

Sögusvið myndarinnar hefst í Svíþjóð en flyst svo yfir í eigin heim aðalpersónanna. „Það er aldrei talað um að þetta sé Ísland heldur er þetta meira þeirra hugarheimur,“ segir Anna. Öll aðalhlutverkin eru í höndum Svía en talsvert margir íslenskir leikarar koma þó við sögu í myndinni og margir þeirra í talandi aukahlutverkum. „Myndin er samt tekin upp á sænsku,“ segir Anna og bætir við að hún verði textuð á ensku. Eyrarbakki er ekki stór staður og spurð hvort tökuliðið sé ekki búið að yfirtaka bæinn algjörlega hlær Anna. „Við erum með okkar bækistöðvar hér á Gónhóli, í gömlu frystihúsi sem var gert upp, og við erum svo heppin að það er ótrúlega mikið af hæfileikaríku fólki af öllum sviðum hér á Bakkanum sem leggur dag við nótt til að hjálpa okkur að hrinda þessu í gegn,“ segir hún.

Sænska framleiðslufyrirtækið Little Big Productions er aðalframleiðandi myndarinnar og íslenska kvikmyndafélagið Hughrif er meðframleiðandi. Upptökur hefjast á morgun og er reiknað með að þær taki um fimm vikur. Athygli vekur að hin árlega Aldamótahátíð verður haldin á Eyrarbakka helgina 10. til 12. ágúst en Anna segir hana þó ekki spila rullu í myndinni. „Það verður bara gaman fyrir okkur að fá að skemmta okkur á hátíðinni með öllum hinum,“ segir hún og hlær. Reiknað er með að myndin verði tilbúin snemma árs 2013. - trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.