Innlent

Fjölmiðlar úr takti ali ekki á misklíðinni

gar@frettabladid.is skrifar
María Thejll, forstöðumaður lagastofnunar Háskóla Íslands, Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við HÍ, og Þórir Ólafsson endurskoðandi sitja í eftirlitsnefndinni.
María Thejll, forstöðumaður lagastofnunar Háskóla Íslands, Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við HÍ, og Þórir Ólafsson endurskoðandi sitja í eftirlitsnefndinni.
Mikilvægt er að fjölmiðlar ali ekki á misklíð, segir eftirlitsnefnd Alþingis um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Eftirlitsnefndin segir í fjórðu áfangaskýrslu sinni fjármálafyrirtæki í meginatriðum hafa fylgt lögum og jafnræðis verið gætt við fjárhagslega endurskipulagningu 650 minni og meðalstórra fyrirtækja með skuldir undir einum milljarði króna.

Sérstaklega er vikið að umfjöllun fjölmiðla um skuldamál einstaklinga og fyrirtækja. Nefndin hafi skoðað öll slík mál sem snerta eftirlitssvið hennar

„Hefur niðurstaðan alla jafna verið á þann veg að vinnsla þeirra sé innan þeirra viðmiða sem unnið skyldi eftir. Umfjöllun um þau hefur því hvorki verið í takt við efni máls né byggð á öllum staðreyndum sem máli skipta,“ segir eftirlitsnefndin.

„Um er að ræða málefni sem sæta bankaleynd og því geta fjármálafyrirtækin ekki fjallað um þau opinberlega og verða að sitja þegjandi undir fréttaflutningi, hvort sem hann er réttur eða rangur. Upp hafa komið tilvik þar sem fjármálafyrirtæki hafa óskað eftir því við viðskiptamann að leynd yrði aflétt í máli hans þannig að skýra megi mál en án þess að það hafi verið samþykkt.“

Þá segir nefndin mikilvægt að fjölmiðlar sem fjalla um mál sem tengjast fjárhagslegri endurskipulagningu kynni sér málin „af kostgæfni og með upplýsingu almennings og almannahagsmuni að leiðarljósi“. Það megi meðal annars gera með því að viðmælendur verði beðnir um rökstuðning og gögn staðhæfingum sínum til stuðnings.

„Mikil ábyrgð hvílir á fréttamiðlum sem flytja fréttir um að þær verði ekki til þess að villa um fyrir viðtakendum eða ali á óánægju og misklíð,“ undirstrikar nefndin.

Engin dæmi eru tiltekin í skýrslu eftirlitsnefndarinnar um ranga umfjöllun fjölmiðla. María Thejll, formaður nefndarinnar, skýrir það með því að nefndin sé háð bankaleynd.

„Við getum sagt að þetta sé meira og minna í umfjöllun fjölmiðla því þeir eru ekki með allar upplýsingar í málunum. Fjölmiðlar þurfa að setja sig inn í út á hvað lög og reglur ganga og fá síðan bæði einstaklinga og fyrirtæki, sem halda því fram að það sé verið að gera eitthvað annað heldur en samræmist lögum og reglum, til að leggja sitt á borðið áður en það byrjar hér æsifréttamennska út og suður,“ segir María Thejll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×