Innlent

Hagfræðingur opnar eigin reiknivél á netinu

Þröstur Sveinbjörnsson.
Þröstur Sveinbjörnsson.
Hagfræðingurinn Þröstur Sveinbjörnsson hefur opnað reiknivél, keimlíka þeirri sem Umboðsmaður Skuldara opnaði í dag.

Þröstur segir tilgang heimasíðunnar að auðvelda væntanlegum sem og núverandi lántakendum að finna út hvernig greiðslubyrði lána þróast yfir tímann, með því að slá inn væntanlega verðbólgu og vexti af lánum.

„Þannig er til dæmis hægt að sjá ef vextir og verðbólga hækka mikið í framtíðinni, og hvernig greiðslubyrði lánsins myndi breytast í kjölfarið," segir Þröstur og bætir við:

„Jafnframt er boðið upp á að bera saman óverðtryggð og verðtryggð lán til að hægt sé að meta hvort lánaformið hentar hverju sinni," segir Þröstur.

Á heimasíðunni má jafnframt nálgast nýjustu upplýsingar um útlánsvexti fjármálastofnanna, þróun fasteignaverðs auk annarra upplýsinga.

Eins munu birtast reglulegar samantektir um helstu stærðir á borð við verðbólgu, fasteignaverðsþróun auk samantektar innlendra greiningaraðila sem fjalla um þessa þætti efnahagslífsins.

Þröstur hefur áður starfað í innlendum fjármálageira meðal annars hjá IFS Ráðgjöf, KPGM og Umboðsmanni Skuldara. Hann færði sig svo yfir í tölvugeirann og starfar hjá Fakta ehf. hugbúnaðarhúsi.

Reiknivélina má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×