Erlent

Grænland hækkar mikið eftir því sem ísinn bráðnar

Nýjar mjög nákvæmar GPS mælingar sýna að Grænland hækkar mikið eftir því sem íshellan yfir landinu bráðnar.

Fjallað er um málið í Jyllands Posten en þar segir að hópur danskra og alþjóðlegra vísindamanna hafi fundið út að Grænland hækkar um allt að þrjá sentimetra á ári vegna bráðnunar íssins. Við það að ísinn bráðnar léttist þrýstingurinn á berginu undir honum og það lyftist upp.

Mælingar vísindamannanna sýna ennfremur að þessi þróun verðir hraðari með hverju árinu. Raunar er hægt að mæla árstíðabundna sveiflu í þessum efnum, það er Grænland hækkar mest á sumrin en lækkar aðeins aftur yfir veturinn þegar ísinn hleðst upp að nýju.

Mikilvægt er að fylgjast vel með þessum breytingum á hæð Grænlands yfir sjávarmáli þar sem þær geta breytt kortum af siglingaleiðum meðfram ströndum landsins.

Þá hafa vísindamennirnir reiknað út að ef ísinn hverfur alveg af Grænlandi muni landið hækka um nærri eitt þúsund metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×